Ljósnetsuppbygging hefst í vor. Mosfellsbær og fjarskiptafyrirtækið Míla ehf. hafa gert með sér samkomulag um að Míla muni hefja uppbyggingu á ljósneti í Mosfellsbæ á vormánuðum 2013. Uppbygging á ljósneti í bæjarfélaginu gefur öllum þjónustuaðilum á fjarskiptamarkaði tækifæri á að auka framboð sitt hvort sem það er á sviði sjónvarps- eða internetþjónustu.
Ljósnetsuppbygging hefst í vor
Mosfellsbær og fjarskiptafyrirtækið Míla ehf. hafa gert með sér samkomulag um að Míla muni hefja uppbyggingu á ljósneti í Mosfellsbæ á vormánuðum 2013. Uppbygging á ljósneti í bæjarfélaginu gefur öllum þjónustuaðilum á fjarskiptamarkaði tækifæri á að auka framboð sitt hvort sem það er á sviði sjónvarps- eða internetþjónustu.
Míla mun hefja vinnuna í maí í Skálatúnshverfinu, Töngum, Löndum og í Ásahverfi. Að því búnu verður hafist handa í Holtum, Byggðum og Reykjahverfi. Mosfellsdalurinn verður á dagskrá á fyrri hluta ársins 2014. Auk þess hafa ýmis önnur hverfi í bænum þegar verið tengd. Áætlað er að uppbyggingu á ljósnetinu verði lokið á fyrsta ársfjórðungi ársins 2014.
Ljósvæddasta land í Evrópu
Síminn og Míla hafa á undanförnum árum byggt upp ljósnet á höfuðborgarsvæðinu.
Unnið hefur verið að því að um verði að ræða opið aðgangsnet sem allir þjónustuaðilar geti haft aðgengi að.
Markmiðið er að nær öll heimili á höfuðborgarsvæðinu verði tengd ljósneti fyrir lok árs 2013. Auk þess ætlar Míla að veita heimilum frá Borgarnesi til Hvolsvallar að meðtöldum Vestmannaeyjabæ og þéttbýlisstöðum á Reykjanesskaga aðgang að því fyrir lok árs 2013. Þá verða um 90 þúsund heimili, eða um 75% heimila á öllu landinu, með aðgang að kerfinu og þar með styrkir Ísland sig í sessi sem ljósvæddasta land í Evrópu.
Míla veitir öllum fjarskiptafyrirtækjum þjónustu á sínum grunnnetum um ljós og kopar. Heimasími, farsími og gagnasambönd einstaklinga og fyrirtækja fara að miklu leyti um net Mílu. Síminn, Vodafone og önnur fjarskiptafyrirtæki veita einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu svo sem farsímalausnir, heimasíma, sjónvarps- og internetþjónustu ofan á grunnfjarskiptakerfin.
Aukinn gagnaflutningshraði
Með ljósneti næst háhraðanettenging þar sem upphal og niðurhal tekur skemmri tíma. Mögulegt er að streyma tónlist og kvikmyndum, tengja allt að fimm háskerpumyndlykla fyrir sjónvarpið og vera með leikjatölvur og önnur nettengd tæki fjölskyldunnar í öruggu sambandi á sama tíma. Með aðgangi að háhraðanetinu fá heimilin verulega aukinn gagnaflutningshraða sem leyfir m.a. flutning á mörgum háskerpusjónvarpsrásum samtímis, frábæra internettengingu og bestu aðstæður til fjarvinnu. Viðskiptavinir velja sér þjónustu hjá fjarskiptafyrirtækjunum.
Mynd:
Páll Á. Jónsson framkvæmdastjóri Mílu,
Eva Magnúsdóttir forstöðumaður sölu hjá
Mílu og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Frétt: www.mosfellingur.is