Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur mótmælt boðuðum hækkunum á gjaldskráOrkuveitu Reykjavíkur og telur það ekki sanngjarnt að velta erfiðrifjárhagsstöðu OR yfir á heimili, sveitarfélög og fyrirtæki með þeimhætti sem nú er gert.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur mótmælt boðuðum hækkunum á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur og telur það ekki sanngjarnt að velta erfiðri fjárhagsstöðu OR yfir á heimili, sveitarfélög og fyrirtæki með þeim hætti sem nú er gert. Bæjarráð Mosfellsbæjar beinir jafnframt þeim eindregnu tilmælum til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að þessi gríðarlega hækkun verði endurskoðuð og annarra leiða leitað til að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, hefur sent tilmæli bæjarráðs á forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnarformann.
Bókunin er svohljóðandi:
“Vegna boðaðra hækkana Orkuveitu Reykjavíkur á gjaldskrám þann 1. október næstkomandi vill bæjarráð Mosfellsbæjar af því tilefni lýsa því yfir að ekki geti talist sanngjarnt að velta erfiðri fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur yfir á heimili, sveitarfélög og fyrirtæki með þeim hætti sem nú er gert.
Þau sveitarfélög sem ekki eru hluti af eigendahópi Orkuveitunnar bera ekki ábyrgð á óhagstæðum fjármögnunarsamningum og hafa ekki þegið arðgreiðslur til þess að greiða niður samfélagsleg verkefni.
Skemmst er að minnast yfirlýsingar fyrrverandi stjórnarformanns OR þegar arðgreiðslur yfirstandandi árs voru rökstuddar: “Arðgreiðslur OR renna til samfélagslegra verkefna á vegum eigendanna og gera sveitarfélögunum kleift að halda aftur af gjaldskrárhækkunum á sinni margþættu þjónustu.”
Bæjarráð Mosfellsbæjar beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnar OR að þessi gríðarlega hækkun verði endurskoðuð og leitað verði annarra leiða til að bregðast við fjárhagsvanda Orkuveitu Reykjavíkur.”
Samþykkt á 992. fundi Bæjarráðs Mosfellsbæjar þ. 2. september 2010.