Í Mosfellsbæ eru 93% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á. Þetta kemur fram í árlegri þjónustukönnun sem Capacent gerir meðal sveitarfélaga. Um 90% bæjarbúa eru ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar. Þegar kemur að skipulagsmálunum er Mosfellsbær í öðru sæti meðal sveitarfélaga.Almenn ánægja er með skólana en um 80% íbúa eru ánægðir með leik- og grunnskóla bæjarins.
Mosfellsbær kemur vel út í árlegri könnun Capacent
Mosfellingar ánægðir með bæinn sinn.
Í Mosfellsbæ eru 93% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á. Þetta kemur fram í árlegri þjónustukönnun sem Capacent gerir meðal sveitarfélaga. Bærinn fær einkunina 4,4 af 5 mögulegum og er með þriðju hæstu einkunnina af sveitarfélögum í landinu. Í Mosfellsbæ var úrtakið 452 manns og var svarhlutfall um 60%.
Mikil ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar.
Samkvæmt könnuninni eru um 90% bæjarbúa ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar er Mosfellsbær þar í fjórða sæti meðal sveitarfélaga. Þegar kemur að skipulagsmálunum er Mosfellsbær í öðru sæti meðal sveitarfélaga en þar eru hlutföllin töluvert lægri, 63% bæjarbúa eru ánægðir með þau mál hér og 12,4% óánægðir.
Almenn ánægja með skólana.
Um 80% íbúa eru ánægðir með leik- og grunnskóla bæjarins og erum við þar í 5. sæti meðal sveitarfélaga.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist mjög ánægður með útkomu Mosfellsbæjar í könnuninni. „Það er ánægjulegt hvað bærinn kemur alltaf vel út úr þessu mati. Hér finnst fólki greinilega gott að búa og er það einmitt markmiðið. Hinsvegar verðum við líka að horfa á það sem við getum bætt okkur í, við dölum t.d. aðeins í einkunn hvað varðar þjónustu við barnafjölskyldur sem er örugglega afleiðing að þeim ráðstöfunum sem grípa hefur þurft til í kjölfar hrunsins og við þurfum að huga að þessu. Við hækkum hinsvegar töluvert í einkunn varðandi þjónustu við eldri borgara og greinilegt er að það sem verið er að gera í þeim málaflokki, bygging hjúkrunarheimilis og þjónustumiðstöðvar á Hlaðhömrum, mælist vel fyrir,“ segir Haraldur bæjarstjóri.