Jólasýning og kökubasar verður haldinn á vegum fimleikadeildar Aftureldingar og Hestamannafélagið Hörður stendur fyrir áhugaverðum fræðsludegi um helgina.
Jólasýning Fimleikadeildar Aftureldingar fer fram í Íþróttahúsinu að Varmá á sunnudaginn kl. 11. Þar munu iðkendur sýna afrakstur vetrarins ásamt því sem jólasveinar koma í heimsókn. Fimleikadeildin vinnur nú hörðum höndum að því að safna fé til fimleikaáhalda og verður með öflugt fjáröflunarstarf í desember. Foreldrar í deildinni munu selja jólapappír, laufabrauð, nammipoka, bökunarpappír og baðsápur í vikunni og föstudaginn 10. desember verður Fimleikadeildin með kökubasar í Bónus.
Hestamannafélagið Hörður stendur fyri áhugaverðum fræðsludag um helgina þegar Súsanna Ólafsdóttir tamningakona í hestamannafélaginu Herði Mosfellsbænum verður með fræðslu fyrir reiðkennara, tamningafólk og reyndar alla hestaáhugamenn. Um er að ræða dagskrá sem inniheldur bæði fyrirlestra og kennslusýningar og fer hún fram í félagsheimili og reiðhöll Harðar í Mosfellsbæ nk laugardag og hefst kl. 9.30. Súsanna byggir á upplifun sinni og reynslu sem tamningakona og leggur áherslu á mannleg samskipti.
“Starf tamningamanna snýst um fleira en að temja hest. Tamningamenn eru að þjónusta fólk og við þurfum að vera flink í samskiptum við hesteigendur, viðskiptavinina okkar. Einnig á ég við í sambandi við hestaverslun. Það krefst leikni í mannlegum samskiptum að gera fólki til hæfis,” segir Súsanna.
Nánari upplýsingar er að finna á vef Hestamannafélagsins Harðar.