Mosfellsbær hefur tekið ákvörðun um lokun á starfstöðvum sveitarfélagsins sem halda úti þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.
Mosfellsbær hefur tekið ákvörðun um lokun á starfstöðvum sveitarfélagsins sem halda úti þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna COVID-19 veirunnar og er ákvörðun um lokun starfsstöðva tekin með hliðsjón af þeirri yfirlýsingu.
Eftirfarandi starfstöðvum Mosfellsbæjar verður lokað tímabundið frá og með 9. mars 2020:
- Félagsstarf aldraðra Eirhömrum.
- Skipulagt tómstunda- og íþróttastarf fyrir eldri borgara á vegum Mosfellsbæjar, Félags aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni (FaMos) og Vorboðanna, kórs eldri borgara, s.s. kóræfingar í safnaðarheimili Lágafellssóknar, íþróttaæfingar í íþróttamiðstöðvunum í Lágafellslaug og Varmárlaug. Starfsemi þessi fellur niður þar til annað verður ákveðið.
Upplýst verður um lokanir og þegar starfsemi hefst að nýju til allra hlutaðeigandi.
Stuðnings- og öldrunarþjónusta Eirhamra verður áfram opin fyrir íbúa hússins.
Önnur þjónusta Mosfellsbæjar eins og heimaþjónusta og stuðningsþjónusta er óbreytt.
Viðkvæmir hópar
Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Það er aldrei of oft talað um fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru; hreinlæti, þrif, tryggja gott aðgengi að handspritti, handsápu og pappírsþurrkum. Réttur handþvottur er talinn skipta miklu máli til að koma í veg fyrir smit og á það við um venjulega flensu líka.