Miðvikudaginn 25. apríl er lokasýning á hinu bráðskemmtilega leikriti Andlát við jarðarför hjá Leikfélagi Mosfellssveitar en það hefur verið fullt hús hjá leikfélaginu á nær allar sýningar. Í tilefni þess býður leikfélag Mosfellssveitar frábært tilboðsverð á þessa lokasýningu..
Miðvikudaginn 25. apríl klukkan 20:00 verður lokasýning á leikritinu Andlát við jarðarför hjá Leikfélagi Mosfellssveitar.
Leikritið er byggt á bresku kvikmyndinni Death at a funeral eftir Dean Craig og leikstjóri er Guðný María Jónsdóttir. María Guðmundsdóttir ásamt Guðnýju Maríu sáu um handritsvinnu. Eva Björg Harðardóttir hannar leikmynd og búninga og Hörður Guðjónsson lýsingu.
Leikritið fjallar um fjölskyldu sem hittist í jarðarför fjölskylduföðurins. Eldri bróðirinn, sem enn býr hjá foreldrum sínum ásamt konu sinni, tekur að sér að skipuleggja jarðarförina og flytja minningarorðin. Það sem upphaflega virtist vera tiltölulega einfalt verkefni verður honum hins vegar fjötur um fót þegar alls kyns óvæntar uppákomur gera jarðarförina að algjörri matröð. Ofskynjunarlyf, óþolandi gömul frænka, hrokafullur bróðir og kvennabósi, tuðandi eiginkona og svo dularfullur gestur úr fortíð föður hans sem reynir að afhjúpa hneykslandi leyndarmál hins látna.
Þetta er bráðskemmtileg og fyndin sýning sem enginn má láta framhjá sér fara.
Tilboðsverð er 1500 krónur á þessa lokasýningu (fullt verð kr. 2000.-) og miðapantanir eru í
síma 566 7788. Vinasamlegast tilgreinið frá hvaða fyrirtæki þig hringið til að fá þetta tilboð.
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu leikfélagsins, www.leikmos.is og facebook síðu félagsins.