Listsýningin Við Suðumark verður haldin í Listasal Mosfellsbæjar og opnaði 21. apríl kl. 15:00.
Þar sýna saman listakonurnar Elín S. M. Ólafsdóttir (Ella) og Kristín Gunnlaugsdóttir teikningar, málverk og útsaum í striga. Verk beggja eru kraftmikil og tjáningarrík. Sýningin stendur til 11. maí.
Opið er alla virka daga frá 12:00 – 18:00, miðvikudaga frá 10:00 – 18:00 og laugardaga frá 12:00 – 15:00
Kristín Gunnlaugsdóttir lærði á Ítalíu, íkonamálun og klassísk vinnubrögð málverksins. Hún bjó meðal annars í klaustri um tíma og nam hjá nunnureglu. Hún hefur getið sér gott orð fyrir íkonsprottin málverk sín, sem hafa bæði verið gerð með olíulitum og svo egg tempera þar sem litadufti og eggjarauðu er blandað saman.
Myndefnið hefur oft og tíðum verið andlegs/trúarlegs eðlis, kyrrð og fegurð svifið yfir vötnum og mikil tæknileg færni í hávegum höfð. Nýverið tók Kristín nýjan pól í hæðina þar sem hún leitaði inná við og myndefnið varð meira ögrandi en áður og þannig sprengdi hún kyrrláta rammann sinn.
Elín S. M. Ólafsdóttir (Ella) hefur mikið notað listina í sínum veikindum og hefur snert á flestum miðlum. Hún er mikil leikkona ásamt því að teikna og mála. Hún vinnur mikið með konur og gyðjur í verkum sínum sem eru mjög litrík. Verk Ellu eru mjög áhugaverð, spennadi og tjáningarrík. Verklag þeirra er mjög ólíkt, Ella vinnur fremur hratt og af meiri hvatvísi en Kristín sem aftur á móti er yfirveguð og öguð í vinnubrögðum. Kristín vinnur stór verk en Ella lítil.
Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að fá listamenn til að vinna saman, fatlaða og ófatlaða. Það er gert til þess að báðir hópar/aðilar fái að kynnast heimum hvers/hvors annars. (www.kristing.is, www.bokmos.is)
Allir velkomnir og aðgangur ókeypis