Veturinn 2017 leitaði Menntamálastofnun til Lestrarátaks Lions á Íslandi varðandi samstarf um hvort Lionsklúbbar landsins gætu séð um að afhenda leikskólum hver í sínu nærsamfélagi gjafapakka sem inniheldur læsishvetjandi námsefni sem Menntamálastofnun gefur út.
Veturinn 2017 leitaði Menntamálastofnun til Lestrarátaks Lions á Íslandi varðandi samstarf um hvort Lionsklúbbar landsins gætu séð um að afhenda leikskólum hver í sínu nærsamfélagi gjafapakka sem inniheldur læsishvetjandi námsefni sem Menntamálastofnun gefur út. Í pakkanum er námsefni sem býður upp á fjölbreytta vinnu tengda orðaforða og stafa- og hljóðvitund barna. Einnig má finna hreyfispil, tónlistarleiki, bókstafi, léttlestrarbækur o.fl.
Lions er aðili að þjóðarsáttmála um læsi þar sem lögð er áhersla á að efla læsi 2–16 ára barna. Verkefnið hófst nú í haust 2018 þar sem Lionsklúbbar um land allt hafa unnið að þessu skemmtilega og gefandi verkefni.
Þann 18. september afhentu Lkl. Mosfellsbæjar og Lkl. Úa leikskólastjórum í átta leikskólum í Mosfellsbæ og einum leikskóla á Kjalarnesi gjafapakkana. Einnig mætti Kolbrún G. Þorsteinsdóttir formaður fræðslunefndar sem þakkaði fyrir hönd leikskólastjóranna.
Í nokkur ár hafa klúbbarnir gefið öllum börnum í 5. bekk bókamerki, sem er verkefni Lions á Íslandi til 10 ára. Á síðasta vetri gáfu Lionsklúbbarnir í Mosfellsbæ bækur á skólabókasafn Varmárskóla. Lionsklúbburinn Úa hefur gefið bækur á skólabókasafn Krikaskóla og fært öllum grunnskólunum í Mosfellsbæ spjaldtölvur.