Mikil hamingja braust út þegar tilkynnt var að framlag Íslands í Evróvisjónkeppninni, lagið Never Forget eftir Mosfellinginn Gretu Salóme Stefánsdóttur, hefði komist áfram í aðalkeppnina á laugardaginn.
Flutningur Gretu Salóme og Jónsa þótti einstaklega glæsilegur og var þeim fagnað með flugeldasýningu og gríðarlegum fagnaðarlátum að keppninni lokinni.
Mikil fagnaðarlæti brutust út hjá íslensku flytjendunum í Kristalshöllinni í Bakú í Aserbaídsjan. „Það var rosa gaman að flytja lagið. Mér líður svo vel, nú er takmarkinu náð og allt sem gerist á eftir þessu er bara bónus,“ sagði Greta Salóme. „Ég er mjög fegin að Íslendingar geta haldið grillpartí á laugardaginn.“
Lagið var eitt þeirra tíu laga sem komust áfram í aðalkeppnina á laugardaginn, en alls kepptu 18 lög í undanúrslitunum í gærkvöldi. Síðari undanúrslitin verða annað kvöld, þá komast einnig tíu lög áfram og síðan bætast við sex lög sem ekki þurfa að keppa í undanúrslitunum. Nú taka við stífar æfingar hjá íslenska hópnum fram á laugardag þegar stóra stundin rennur upp. Framlag Íslands í Evróvisjón 2012, Never Forget í flutningi Gretu Salóme og Jónsa verður eitt af þeim 26 lögum sem keppa í aðalkeppninni á laugardaginn en Ísland verður sjöunda landið á sviðið. Þetta er í 25. skiptið sem Ísland tekur þátt í keppninni og nú er bara spurning hvort Eurovision verði haldið í Mosfellsbæ að ári?