Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar var áætlun um aðgerðir til að koma til móts við íbúa og fyrirtæki vegna efnahagslegra áhrifa af COVID-19 samþykkt einróma.
– Viðspyrna bæjarstjórnar Mosfellsbæjar vegna COVID-19
Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar var áætlun um aðgerðir til að koma til móts við íbúa og fyrirtæki vegna efnahagslegra áhrifa af COVID-19 samþykkt einróma.
Áður hafði verið samþykkt að gjöld vegna leikskóla, grunnskóla og frístundar verði lækkuð, felld niður eða leiðrétt í samræmi við skerðingu þjónustu vegna afleiðinga af COVID-19.
Gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins verður fjölgað til að létta mánaðarlega greiðslubyrði íbúa og fyrirtækja til þess að létta undir með þeim aðilum sem nú þegar hafa fundið fyrir eða munu finna fyrir tekjufalli vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem nú ríkja. Þannig verður enginn gjalddagi fasteignagjalda í apríl og fyrirtæki geta frestað allt að fjórum gjalddögum.
Þá verða verðlagshækkanir þjónustugjalda sem áttu að taka gildi 1. ágúst frestað fram á næsta ár. Áður hafði verið ákveðið að lækka leikskólagjöld um 5% þann 1. ágúst sem er hluti af stefnu bæjarins um lækkun leikskólagjalda á yfirstandandi kjörtímabili.
Viðhaldsframkvæmdum ársins í stofnunum bæjarins verður flýtt meðal annars með því að nýta það svigrúm til framkvæmda sem myndast við takmarkaða starfsemi stofnana í samkomubanni.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar leggur jafnframt áherslu á að ná samningum við ríkið um að flýta brýnum fjárfestingarverkefnum og má þar nefna stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra, samgönguframkvæmdir eins og breikkun Vesturlandsvegar og mikilvægar vegabætur á Þingvallavegi til að auka öryggi vegfarenda. Þessar framkvæmdir hafa verið í undirbúningi síðustu misseri og unnt að ráðast í þær með skömmum fyrirvara.