Mosfellsbær boðar til opins kynningarfundar um friðlýsingu fossa í Mosfellsbæ, þriðjudaginn 11. desember kl. 17 á Kaffihúsinu Álafossi. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 9. ágúst síðastliðinn að vinna að friðlýsingu fossa í Mosfellsbæ, þar á meðal Álafoss í Varmá og Tungufoss í Köldukvísl.
Mosfellsbær boðar til opins kynningarfundar um friðlýsingu fossa í Mosfellsbæ, þriðjudaginn 11. desember kl. 17 á Kaffihúsinu Álafossi.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 9. ágúst síðastliðinn að vinna að friðlýsingu fossa í Mosfellsbæ, þar á meðal Álafoss í Varmá og Tungufoss í Köldukvísl.
Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja vernd mikilvægra náttúruminja í Mosfellsbæ og um leið gott aðgengi almennings til að njóta þeirra náttúrugæða. Er þetta í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og þau markmið sem sett eru fram í stefnumótun bæjarins um sjálfbært samfélag þar sem stefnt skal að frekari friðlýsingu svæða og náttúrufyrirbæra í sveitarfélaginu.
Verndaráætlun og afmörkun svæðanna eru unnar í góðu samráði við alla hagsmunaaðila, s.s. Umhverfisstofnun, umhverfisráðuneytið og landeigendur. Landsvæðin sem falla undir friðlýsingu Álafoss og Tungufoss eru í eigu Mosfellsbæjar en bæjaryfirvöld telja mikilvægt að kynna fyrirhugaða friðlýsingu fyrir næstu nágrönnum fossanna svo og öðrum sem áhuga hafa á málinu.
Mosfellsbær býður því til opins kynningarfundar um friðlýsingu Álafoss og Tungufoss.
Fundurinn er öllum opinn og eru íbúar í Álafosskvos og Leirvogstungu boðnir sérstaklega velkomnir og hvattir til að mæta.
Á fundinum munu fulltrúar Mosfellsbæjar og Umhverfisstofnunar kynna fyrirhugaða friðlýsingu og svara fyrirspurnum.
Boðið verður upp á kaffi og te.
Með kveðju.
Bjarki Bjarnason, formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.
Tómas G. Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.