Mosfellsbær hrindir nú af stað könnun um hvernig virkja megi íbúa til frekari þátttöku í málefnum sveitarfélagsins. Mosfellingar eru hvattir til að taka þátt og láta þannig í ljós vilja sinn um hvernig samráði er best háttað.
Þjóðfélagsumræðan undanfarin misseri hefur í auknum mæli beinst að lýðræðisumbótum hvers konar. Rætt hefur verið um völd og ábyrgð kjörinna fulltrúa og rétt íbúa til að taka þátt í ákvarðanaferlinu og ákvörðunum. Eitt af stefnumálum nær allra flokka í framboði fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarskosningar í Mosfellsbæ var að setja skuli sérstaka lýðræðisstefnu sveitarfélagsins. Í henni yrði meðal annars einnig settar reglur um íbúakosningar.
Starfshópurinn vinnur nú að gerð lýðræðisstefnu og mun óska eftir þátttöku íbúa í þeirri vinnu með margs konar hætti. Í gegnum tíðina hefur það reynst vera nokkur áskorun að ná til íbúa og virkja þá í samráði. Samráðshópurinn leitar því nú til bæjarbúa og óskar eftir því að þeir taki þátt í skoðanakönnun um hvernig þeir telji að best megi ná til íbúanna í samráðsskyni.
Svör eru með öllu órekjanleg. Könnunin verður í gangi út febrúar.