Kærleiksvika verður haldin í Mosfellsbæ 14. – 21. febrúar og á að verða vika þar sem kærleikurinn verður ofar öllu. Hugmyndin er sjálfsprottin í grasrót Mosfellsbæjar og hefur fjöldi fólks tekið þátt í undirbúningi vikunnar. Stefnt er að því að vikan verði full af kærleiksríkum viðburðum, verkefnum oguppákomum.
Markmið kærleiksvikunnar er að hver einasti bæjarbúi finni fyrir kærleik í sinn garð og gefi af sér kærleik. Þetta gæti falist í hrósi, faðmi, brosi, fallegum skilaboðum eða einhverju öðru uppbyggilegu og skemmtilegu.
Verkefnið er sjálfsprottið og er ekki tengt neinum ákveðnum félagsskap, stofnun eða fyrirtæki. Von undirbúningshópsins er sú að sem flestir komi með framlag til vikunnar og að hún höfði til íbúa á öllum aldri. Ætlast er til þess að þeir sem koma með hugmynd að viðburðum, verkefnum sjái einnig um framkvæmdina þótt undirbúningshópurinn erum tilbúin að aðstoða ef þörf er á.
Von undirbúningshópsins er sú að Mosfellingar taki kærleiksvikunni vel og til verði fullt af skemmtilegum viðburðum og verkefnum. Áhugasamir eru hvattir til að senda upplýsingar um viðburði í Kærleiksvikunni á netfangið kaerleiksvikamos[hja]gmail.com. Dagskrá vikunnar verður svo kynnt hér á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.
Fyrsti dagur kærleiksvikunnar er sunnudagurinn 14. febrúar (Valentínusardagur) og mun undirbúningshópurinn standa að upphafsviðburðinum, hópknúsi, sem vonandi verður fært í heimsmetabók GUINNIESS. Bæjarbúar verða hvattir til að fara í brosgöngu að miðbæjartorginu þennan sunnudag þar sem Mosfellingar munu knúsast og setja heimsmet í hópknúsi. Í kjölfarið verður svo stutt skemmtidagskrá inni í Kjarna sem auglýst verður þegar nær dregur.