Fjöldi hátíðlegra viðburða er í boði á aðventunni í Mosfellsbæ og geta Mosfellingar án efa allir fundið eitthvað við sitt hæfi, jafnt ungir sem aldnir. Heilmikið er um að vera um helgina og verður hér stiklað á því helsta.
Fjöldi hátíðlegra viðburða er í boði á aðventunni í Mosfellsbæ og geta Mosfellingar án efa allir fundið eitthvað við sitt hæfi, jafnt ungir sem aldnir. Heilmikið er um að vera um helgina og verður hér stiklað á því helsta.
Í kvöld býður Samfylkingin til notalegs aðventukvölds í félagsaðstöðu sinni í Þverholti 3. Mosfellskir rithöfundar lesa úr verkum sínum, Jón Kalman Stefánsson les úr nýútkominn bók sinn Harmur englanna og Ævar Örn Jósepsson les úr væntanlegri bók. Kvartett úr Karlakór Kjalnesinga syngur inn jólagleðina og Magnús Orri Schram þingmaður flytur tölu í takt við tilefnið. Jólaglögg og ljúfar veitingar. Allir velkomnir!
Á morgun frá 12:00 til 17:00 mun Handverkstæðið Ásgarður vera með sinn árlega jólamarkað í húsnæði sínu að Álafossvegi 22 í Mosfellsbæ. Allar leikfangalínur Ásgarðs verða til sýnis og sölu, einnig verða kaffi / súkkulaði og kökur til sölu gegn vægu gjaldi. Góðir gestir líta í heimsókn í Ásgarð og að þessu sinni mun góðvinur Ásgarðs, Kristján Kristjánsson (KK) skemmta gestum með nokkrum vel völdum lögum.
Einnig fer fram aðfangamarkaður í Félagsgarði í Kjós á morgun, laugardaginn 5. desember. Allir eru boðnir velkomnir að heimsækja Kjósina þennan frábæra dag. Hægt er að ná sér í jólatré inn í Hvalfjörð og koma svo í Félagsgarð og fá sér heitt kaffi eða kakó með rjóma og ganga að borði hlöðnu veitingum.
Þá verða heimamenn og nokkrir aðkomumenn með mikið úrval að hverskonar vörum sem koma sér vel fyrir jólin. Víst er að þeir sem koma í Félagsgarð geta átt náðuga aðventu í vændum, því þeir þurfa þá ekki að fara búð úr búð til að leita að aðföngum fyrir jólin. Þeir geta þá líka verið vissir um að innkaup þeirra brenni ekki upp dýrmætum erlendum gjaldeyri, heldur frekar að efla innlenda atvinnusköpun.
Á laugardaginn verður kyrrðarstund í Mosfellskirkju kl. 9-11. Stundin hefst í morgunrökkrinu með kristinni íhugun. Síðan er gengið út í birtu dagsins og farið í stuttan göngutúr í dalnum. Heitt kakó í lok samveru.
Aðventukvöld verður síðan haldið í Lágafellskirkju kl. 20 á sunnudag. Ræðumaður Bjarni Snæbjörn Jónsson Fjöldi söngvara og tónlistarmanna flytja okkur fallega jólatónlist. Prestar safnaðarins leiða stundina. Kaffiveitingar verða í safnaðarheimilinu.
Á kaffihúsinu Hraunhús, Völuteigi 6, er einnig mikið um að vera fyrir jólin. Hraunhúsið er með vörur frá hátt í 50 íslenskum hönnuðum víðs vegar af landinu. Á aðventunni verða nágrannar Hraunhúsa, Hlín Blómahús með fallegar skreytingar til sýnis í Hraunhúsum. Á sunnudag kl.14-15.30 áritar Ebba Guðný Guðmundsdóttir bók sína „Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?“ og spjallar við gesti Hraunhúsa.