Mosfellsbær hefur til langs tíma sett umhverfismál sveitarfélagsins í öndvegi og hefur nú ákveðið að stíga skref til aukinnar flokkunar nú í vor með innleiðingu á sérstakri endurvinnslutunnu fyrir pappírsúrgang, til að endurvinna úrgang frá hverju heimili.
Á mynd eru: |
-FRÉTTATILKYNNING-
AUKIN ENDURVINNSLA Í MOSFELLSBÆ
INNLEIÐING Á BLÁRRI PAPPÍRSTUNNU
Mosfellsbær hefur til langs tíma sett umhverfismál sveitarfélagsins í öndvegi. Umhverfismál eru langtímaverkefni, en sveitarfélagið hefur gert áætlun um sjálfbært samfélag sem fræðast má nánar um á heimasíðu sveitarfélagsins. Með þetta að leiðarljósi hefur Mosfellsbær ákveðið að stíga skref til aukinnar flokkunar nú í vor með innleiðingu á sérstakri endurvinnslutunnu fyrir pappírsúrgang og verða þar með fyrsta sveitafélagið á höfuðborgarsvæðinu, ásamt Kópavogsbæ, til að endurvinna úrgang frá hverju heimili.
Mosfellsbær hefur af því tilefni gengið frá samningi við Hafnarbakka-Flutningstækni ehf. um kaup á blárri endurvinnslutunnu fyrir pappír og verður í byrjun júní hafist handa við að dreifa bláum endurvinnslutunnum til allra íbúa í Mosfellsbæ og fræða þá um hið nýja fyrirkomulag. Í nýju tunnurnar má setja allan pappírs og pappaúrgang, s.s. dagblöð, tímarit, fernur, sléttan pappa, skrifstofupappír og bylgjupappa, sem síðan verður flutt til endurvinnslu.
Gjaldtaka fyrir hina nýju endurvinnslutunnu er innifalin í sorphirðugjaldi, enda gert er ráð fyrir því að þessi aukna sorpflokkun skili sér til baka í lægri urðunargjöldum.
Urðun sorps er ekki góður kostur, bæði út frá umhverfislegum og fjárhagslegum sjónarmiðum. Urðunarkostnaður hefur hækkað umtalsvert á undanförnum árum á sama tíma og endurvinnsla hefur orðið hagkvæmari. Með því að innleiða bláa tunnu við hvert heimili er gert ráð fyrir því að auka endurvinnslu og þar með draga úr urðun úrgangs í sveitarfélaginu um allt að 25%. Í hverjum mánuði er tæpum 130 tonnum af úrgangi komið til förgunar frá sveitarfélaginu. Þá er hver íbúi að losa sig við um 180 kíló af sorpi á ári að jafnaði. Samtals gera þetta um 1.500 tonn á ársgrundvelli af sorpi sem þarf að urða. Eftir innleiðingu á breyttu fyrirkomulagi, þar sem íbúar fá endurvinnslutunnu við heimili sitt, er gert ráð fyrir að draga úr þessu magni um þriðjung eða frá 1.500 tonnum í rúm 1.000 tonn.
Það er ljóst að aukin endurvinnsla í sveitarfélaginu er nauðsynleg með tilliti til umhverfisins, lagaumgjarðar og kostnaðar sem hlýst af sorphirðu. Með þessu átaki mun Mosfellsbær skipa sér í sess með þeim sveitarfélögum sem tekið hafa af skarið í umhverfismálum. Íbúar í Mosfellsbæ eru hvattir til að nýta sér þessa auknu þjónustu og taka þátt í verkefninu af fullum þunga. Með því sé hægt að skapa umhverfisvænna samfélag sem er í takt við stefnu sveitarfélagsins í umhverfismálum.
Nánari upplýsingar veita Jóhanna B. Hansen bæjarverkfræðingur eða Tómas G. Gíslason umhverfisstjóri í síma 525 6700.