Á Höfðabergi, útibúi frá Lágafellsskóla, eru í vetur þrjár 5 ára deildir og fjórir bekkir í fyrsta árgangi, alls 120 börn. Mikið hefur verið lagt upp úr samstarfi árganganna tveggja og hefur nemendum því verið blandað markvisst í leik og starfi. Markmið blöndunarinnar eru meðal annars að efla félagsþroska nemenda og stuðla að því að brúa bilið milli skólastiganna.
Á Höfðabergi, útibúi frá Lágafellsskóla, eru í vetur þrjár 5 ára deildir og fjórir bekkir í fyrsta árgangi, alls 120 börn. Mikið hefur verið lagt upp úr samstarfi árganganna tveggja og hefur nemendum því verið blandað markvisst í leik og starfi. Markmið blöndunarinnar eru meðal annars að efla félagsþroska nemenda og stuðla að því að brúa bilið milli skólastiganna.
Námsefnið Hús fyrir alla – Vinavegur 78 eftir Sigurlínu Jónsdóttur, kennara í Brekkuskóla á Akureyri, er í grunninn lífsleikniefni fyrir börn á yngsta stigi grunnskóla.
Á Höfðabergi var þetta efni valið sem samvinnugrundvöllur í aldursblönduðum hópum 5 og 6 ára barna. Í íbúðunum í fjölbýlishúsinu að Vinavegi 78 búa margar fjölskyldur og einstaklingar.
Hver og ein fjölskylda er sérstök, eins og allar fjölskyldur eru. Í verkefnum hverrar íbúðar eru tekin til umfjöllunar eitt eða fleiri sérkenni ásamt nokkrum áhugamálum, til að undirstrika að þar býr fólk með hugðarefni og hæfileika sem það nýtir þrátt fyrir að á einhvern hátt skeri það sig ef til vill úr fjöldanum.
Í sátt og samlyndi Í verkefninu eru tekin fyrir fjölmörg sérkenni, sjúkdómar eða fatlanir sem búast má við að finna í samfélagi fólks. Við þurfum öll að geta umgengist hvert annað í sátt og samlyndi og stundum þurfum við á því að halda að okkur sé sýndur skilningur og tekið tillit til okkar. Slíkar aðstæður má ímynda sér þegar fólk er með fæðuofnæmi, þegar einhver á um sárt að binda vegna áfalla eða þegar aðstoða þarf nýbúa við að fóta sig í nýju samfélagi, svo fáein af þeim viðfangsefnum sem efnið fjallar um séu nefnd.
Það er því mikilvægt að opna umræðu um fjölbreytileikann í mannlífinu og fræða hvert annað um það sem getur orðið á vegi okkar á lífsleiðinni.
Óhætt er að segja að nemendur unnu vel að verkefninu og eru margs fróðari eftir þær umræður sem fram fóru í hópunum.
Heyrst hefur til þeirra fræða hvert annað um ýmislegt, s.s. hvað það er að vera ofvirkur, hvernig blint fólk getur lesið, hvað það þýðir að vera ættleiddur eða hvernig hægt er að lifa með sykursýki.
Nemendur unnu út frá þeirri getu, áhuga og hæfni sem þeir búa yfir hver og einn og allir fengu að njóta sín, auk þess að þjálfast í því að vinna saman.
Verkefnin voru útfærð á verklegan máta þar sem nemendur sköpuðu húsið að Vinavegi 78. Úr varð fjölbýlishús, búið til úr skókössum. Meðfylgjandi mynd sýnir afraksturinn sem hefur verið til sýnis í Kjarna í tilefni af menningarviku leikskólanna.