Næsta vor munu Veitur ohf þurfa að ráðast í hreinsun á Nesjavallaæð svo koma megi í veg fyrir þrýstifall í lögninni.
Slík framkvæmd hefur óhjákvæmilega í för með sér lokun á æðinni með tilheyrandi óþægindum fyrir þá notendur sem tengjast æðinni.
Heitavatnslaust verður í Heytjarnarheiði, Dallandi og Miðdal frá 29. maí til 30. júní næstkomandi. Framkvæmdin mun ekki hafa áhrif á afhendingu hitaveituvatns á öðrum svæðum í Mosfellssveit né á höfuðborgarsvæðinu.
Leitast verður við að ganga hratt til verks til að tryggja eftir fremsta megni að óþægindi meðal notenda verði sem minnst á framkvæmdatíma, en þar sem tenging á heitu vatni fyrir Lynghólsveitu og Miðdalsveitu er beint af Nesjavallaæðinni verða þeir notendur sem þar eru óhjákvæmilega fyrir áhrifum á framkvæmdinni.
Af hverju þarf að hreinsa Nesjavallaæð?
Nesjavallaæð er afar mikilvæg en hún er ein af megin flutningsleiðunum á heitu vatni að höfuðborgarsvæðinu. Lögnin var síðast hreinsuð árið 2003 og orðið tímabært að hreinsa hana aftur þar sem steinefni úr vatninu hafa fallið út inni í pípunni. Slík uppsöfnun steinefna hefur mikil áhrif á flutningsgetu heita vatnsins og veldur að lokum þrýstingsfalli ef ekkert er að gert.
Hægt er að fá nánari upplýsingar um málið í síma 516-6000 eða á vef Veitna ohf (Hreinsun á Nesjavallaæð).