Framkvæmdasýsla ríkisins hefur boðið út hönnun Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Um er að ræða um 4.000 fermetra byggingu sem staðsett verður í miðbæ Mosfellsbæjar, nánar tiltekið við Háholt og mun hún rúma um 4-500 nemendur.
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur boðið út hönnun Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Um er að ræða um 4.000 fermetra byggingu sem staðsett verður í miðbæ Mosfellsbæjar, nánar tiltekið við Háholt og mun hún rúma um 4-500 nemendur.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hóf kennslu í haust í Brúarlandi í bráðabirgðahúsnæði. Aðeins einn árgangur er í skólanum, en gert er ráð fyrir að bæta við öðrum næsta haust. Áætlað er að nýtt húsnæði Framhaldsskólans í Mosfellsbæ verði tekið í notkun 2012-2013.
Í samkeppnislýsingu segir að við hönnun hússins og undirbúning skólastarfs skuli lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni. Jafnframt verði við ákvörðun lóðarstærðar gert ráð fyrir möguleikum til verulegrar stækkunar í framtíðinni.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er framhaldsskóli sem kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og verða þær áherslur samfléttaðar við skólastarfið. Þar er átt jafnt við auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir. Enn fremur er stefnt að því að gera umhverfi skólans að lifandi þætti í skólastarfinu þar sem hugað verður m.a. að náttúrufræði umhverfisins, virðingu fyrir umhverfinu og hvernig njóta má umhverfisins og nýta á skynsamlegan hátt.
Skólinn er framhaldsskóli með áfangasniði og lögð er áhersla á að bjóða nemendum metnaðarfullt nám við hæfi hvers og eins, á stúdentsbrautum, stuttum starfsnámsbrautum og almennum brautum. Það endurspeglast í námsframboði skólans á þann hátt að þó að skólinn sé að stærstum hluta bóknámsskóli, mun hann bjóða fram nám í verknáms- og handverksgreinum og listgreinum til að auka fjölbreytni námsins.
Skilafrestur tillagna er 10. mars 2010 og veitt verða þrenn verðlaun að heildarupphæð 8 milljónir króna. Samkeppnin fer fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og er auglýst á EES.