Skipulagðar hjóla- og gönguferðir í samvinnu við Mosfellsbæ
Fyrirtækið Út og vestur, í samstarfi við íþrótta- og heilsurækt í Mosfellsbæ, stendur fyrir útivistardagskrá með vorinu. „Við viljum sýna viljann sem kemur fram í stefnumótun bæjarfélagins um Heilsubæinn Mosfellsbæ,“ segja aðstandendur framtaksins. „Við viljum líka sýna að við heimamenn látum ekki aðeins nægja að benda á leiðina að heilsuræktinni. Við förum hana sjálf.”
Í fylgd öflugra einstaklinga
„Við ætlum að hjóla og ganga inn í vorið um upp- og nærsveitir Mosfellsbæjar í fylgd öflugra einstaklinga úr sveitinni sem hafa mikið fram að færa um heilsurækt, náttúru og mannlíf. Íþrótta- og heilsuræktin í Mosó verða okkar grunnbúðir og heimahöfn. Þegar við höfum lagt allt þetta saman, umhverfið, fólkið og mannvirkin sem við eigum nú þegar, þá sjáum við hvað við erum í raun og veru rík,“ segir Jón Jóel Einarsson hjá Út og vestur.
Þau hjónin, Jón Jóel og Maggý sem skipuleggja útivistina, hvetja til þess að fólk kynni sér ferðirnar á www.gowest.is. Hægt er hægt að velja stakar ferðir eða pakka og jafnvel taka með ferð á Hvannadalshnjúk ef það freistar. Fyrsta skipulagða ferðin verður farin á skírdag, fimmtudaginn 28. mars, en dagskrána má já hér neðar.
Dagskrá framundan:
Skírdagur 28. mars
Fyrsta ferð vorsins verður farin á skírdegi. Gengið upp á Esju úr Blikdal í Kjós. Uppgangan er lengri en ekki eins brött og sú hefðbundna.
Laugardagur 6. apríl
Ferð á Moskarðshnjúka með útúrdúr.
Laugardagur 27. apríl
Hjólaferð með Bjarka Bjarnasyni. Þróun byggðar skoðuð, náttúrufar og menningarlíf í sveit og bæ. Farið verður frá Lágafellslaug.
Laugardagur 25. maí
Ferð með Vilhjálmi Ara, heimilislækni. Í fókus verður vatnið sem skapar okkar ríkidæmi. Hann fræðir fólk
um mikilvægi vatnsins fyrir heilsu og líkamsrækt.
Laugardagur 1. júní
Ferð með Sigrúnu Helgadóttur, líffræðingi og rithöfundi til að skoða elsta og nánasta þjóðgarðinn okkar. Sigrún er sérfróð um þjóðgarða. Hvaða þýðingu þeir geta haft fyrir heilsurækt og vellíðan.