Um 50 manns sóttu almennan kynningarfund um nýtt miðbæjarskipulag sem haldinn var í Listasal á þriðjudag og sköpuðust góðar umræður.
Um 50 manns sóttu almennan kynningarfund um nýtt miðbæjarskipulag sem haldinn var í Listasal á þriðjudag og sköpuðust góðar umræður. Arkítekt miðbæjarskipulagsins, Sigurður Einarsson, frá Batteríinu Arkítektar, kynnti aðdraganda tillögunnar, sem hefur verið í undirbúningi í fimm ár, og útskýrði hana í meginatriðum. Formaður skipulags- og byggingarnefndar, Bryndís Haraldsdóttir, kynnti jafnframt sjónarmið sem höfð voru að leiðarljósi við gerð tillögunnar.
Útgangspunktur tillögunnar er lifandi, grænn miðbær, framsækin byggingarlist og hlýlegt umhverfi. Farið hefur verið í gegn um mikið samráðsferli með íbúum. Gerð var skoðanakönnun meðal íbúa um hvernig þeir nýti miðbæinn og hvernig þeir vildu að hann þróaðist til framtíðar. Einnig voru settir saman rýnihópar íbúa til að vinna úr niðurstöðum þeirrar könnunar og voru tillögurnar m.a. byggðar á þeim upplýsingum sem þannig fengust.
Á fundinum var talsvert spurt um svokallaðar mótvægisaðgerðir gegn vindi sem Sigurður Einarsson kynnti. Á byggingum sem gert er ráð fyrir að rísi sitt hvoru megin við Kjarna er gert ráð fyrir að komið verði upp einingum sem dragi úr vindi. Meðal þess sem notað hefur verið eru hvers kyns grindur sem byggðar eru utan á hús en einnig er gert ráð fyrir að lögun húsanna sé þannig gerð að hún drepi einnig vind. Einnig er gert ráð fyrir að talsvert af trjám verði plantað, bæði í því skyni að draga úr vindi, og einnig til þess að gera miðbæinn grænni.
Tillagan um nýtt deiliskipulag miðbæjarins í Mosfellsbæ, er nú í auglýsingu ásamt samsvarandi tillögu að breytingum á aðalskipulagi. Tillögurnar eru til sýnis á torginu í Kjarna. Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út 7. desember.
Kl. 17:00 – 17:30 alla virka daga meðan sýningin á torginu stendur munu starfsmenn Mosfellsbæjar eða fulltrúar í skipulags- og byggingarnefnd verða á staðnum til að veita upplýsingar og svara fyrirspurnum, eða nánar tiltekið sem hér segir:
- Fimmtud. 26. nóv. Finnur Birgisson, skipulagsfulltrúi
- Föstud. 27. nóv. Bryndís Haraldsdóttir, form. s/b-nefndar
- Mánud. 30. nóv. Finnur Birgisson, skipulagsfulltrúi
- Þriðjud. 1. des. Ólafur Gunnarsson, varaform. s/b-nefndar og Jónas Sigurðsson, nefndarmaður
- Miðvikud. 2. des. Ásbjörn Þorvarðarson, byggingarfulltrúi
- Fimmtud. 3. des. Bryndís Haraldsdóttir, form. s/b-nefndar og Marteinn Magnússon, nefndarmaður
- Föstud. 4. des. Ólafur Gunnarsson, varaform. s/b-nefndar og Jónas Sigurðsson, nefndarmaður
- Mánud. 7. des. Finnur Birgisson, skipulagsfulltrúi
Bæjarbúar geta einnig sent fyrirspurnir eða óskað eftir upplýsingum með tölvupósti til mos@mos.is