Fyrsta skóflustungan að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU var tekin í Álfsnesi 17. ágúst af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og sex fulltrúum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrsta skóflustungan að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU var tekin í Álfsnesi 17. ágúst af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og sex fulltrúum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu stöðvarinnar verður gjörbylting í meðhöndlun heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu og urðun lífræns úrgangs verður liðin tíð.
Áætlað er að stöðin verði komin í fullan rekstur fyrri hluta árs 2020 en markmiðið með byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar er að endurnýta um 95% af þeim lífræna úrgangi sem til fellur á heimilum á höfuðborgarsvæðinu. Ársframleiðsla stöðvarinnar verður annars vegar um 3 milljónir Nm3 af metangasi, sem hægt er að nýta sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti, sem hentar vel til landgræðslu.
Gas- og jarðgerðarstöð er loftslagsmál
Gas- og jarðgerðarstöðin er mikilvægt skref í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda vegna meðhöndlunar úrgangs. Nýting metans í stað jarðefnaeldsneytis á ökutæki hefur í för með sér verulegan ávinning fyrir umhverfið. Breytt vinnsla heimilisúrgangs mun hafa margvísleg jákvæð áhrif á bæði umhverfi og samfélag.
„Það er ánægjulegt að framkvæmdir séu nú að hefjast við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Um er að ræða mikilvægt umhverfismál sem varðar okkur öll og þá skiptir miklu fyrir okkur Mosfellinga að allri urðun í Álfsnesi verður hætt þegar stöðin verður komin í rekstur. Við höfum fylgt þessu verkefni eftir af festu á vettvangi SORPU og að mínu mati átti það þátt í að flýta þessu verkefni.“