Fyrsti skólinn fyrir eins árs til níu ára börn – starfar allan daginn allt árið um kring. Mosfellsbær tekur í dag í notkun nýjan skóla, Krikaskóla, sem verður skóli fyrir eins árs til níu ára börn.
Framsækin nýjung í skólastarfi á Íslandi
Fyrsti skólinn fyrir eins árs til níu ára börn – starfar allan daginn allt árið um kring
Mosfellsbær tekur í dag í notkun nýjan skóla, Krikaskóla, sem verður skóli fyrir eins árs til níu ára börn. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur skóli starfar hér á landi. Í honum er samfella milli leik- og grunnskóla og starfar hann frá 8-17 alla daga vikunnar, allt árið um kring. Ekki er því um hefðbundin jóla-, páska- og sumarfrí líkt og tíðkast í grunnskólum, heldur taka börnin einungis 4-6 vikna sumarfrí á ári. Skólinn er því sniðinn að þörfum nútímafjölskyldna og til marks um einlægan vilja bæjarstjórnar Mosfellsbæjar til að leita bestu leiða í þjónustu við börn og barnafjölskyldur.
Húsið er hannað og smíðað utan um börnin og starfsfólkið út frá þeirri skólastefnu sem Krikaskóli starfar eftir. Hið nýja hús gerir það til að mynda að verkum að hægt er að stunda útikennslu í anda stefnunnar allan ársins hring í því óútreiknanlega veðurfari sem er óumflýjanlegt hér á þessu landi.
Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla segir: “Það er stór stund að geta tekið í notkun húsnæði sem er hannað í kring um þá skólastefnu sem unnið er eftir hér í Krikaskóla. Það er sérsniðið að þeim þörfum sem skólastefnan býr til og styður við faglega starfið í skólanum. Það er alveg einstakt að hafa fengið að taka þátt í hönnun húss
Sérstaða Krikaskóla felst í samþættingu, útistarfinu, hinum heildstæða skóla allan ársins hring og að börn fái notið bernsku sinnar. Samþættingin er af tvennum toga, annars vegar samþættingu árganga, en hins vegar leikskóla og grunnskóla. Hér verður mikil áhersla lögð á útistarf enda erum við með sérhannaðar útikennslustofur sem skýla munu börnunum fyrir veðri og vindum vetur sem sumar. Krikaskóli leggir mikla áherslu á leikinn í sínu starfi að börn fái notið bernsku sinnar og fái frelsi til þess að fá útrás fyrir þann leik sem þeim er tamast.”
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir: “Í mínum huga einkennist þessi bygging af umhyggju fyrir börnunum sem í honum munu starfa, sem og fyrir starfsfólkinu. Við hönnun og byggingu skólans voru börnin ávallt í forgrunni og reynt var að uppfylla þarfir þeirra og óskir um vinnustað þar sem þeim mun fyrst og fremst líða vel. Hér hefur svo sannarlega tekist að búa til stað þar sem börnin okkar munu vaxa og dafna og geta fengið útrás fyrir sína óendanlegu sköpunargleði og forvitni.”
Haldin var samkeppni um þróun skólastefnu Krikaskóla fyrr á árinu og vinningstillagan, sem unnin var af hópi sem kallar sig Bræðingur, gengur út á grunnhugmynd skólans um lýðræðisleg vinnubrögð, einstaklingsmiðað nám og að efla reynslu og virkni barnsins með því að bjóða því upp á raunveruleg verkefni og viðfangsefni. Í Bræðingi eru meðal annarra Andri Snær Magnason rithöfundur, Helgi Grímsson skólastjóri, auk arkitekta, verkfræðinga, landslagsarkitekts og fleiri.
Í vinningstillögu Bræðingshópsins segir: “Krikaskóli er frábært tækifæri til nýsköpunar í íslensku skólastarfi. Í Krikaskóla er ekki aðeins tækifæri til að tengja rafmagnið og gítarinn saman heldur hugsanlega að bæta fiðluboganum við. Skóli sem er hannaður frá grunni til að mæta þörfum barna frá eins árs aldri til níu ára krefst nýrrar hugsunar og skörunar á mörgum sviðum, allt frá hönnun skólabygginga til skipulags og stjórnunar í skólastarfi. Þarna mætast tvær hefðir, grunnskólahefðin og leikskólahefðin í einu og sama rýminu, Sérþekking á báðum sviðum blandast þar í einum skóla undir einni stjórn, þekkingin smitast eðlilega á milli en ekki aðeins á formlegum fundum eða heimsóknum. Þekkingin og menning úr báðum heimum mun renna saman í daglegum leik og starfi og jafnvel samfellu í námi. Við sem sækjum um þetta verkefni teljum að í þessu ferli muni skapast margvíslegar nýjungar, hugmyndir munu kvikna og þekking verða til sem mun gagnast öllu skólastarfi á Íslandi. “
Tilvitnanir frá 5-8 ára nemendum í Krikaskóla þegar þau litu nýja skóla sinn fyrst augum:
“Hver fattaði upp á þessu???!!!”
“Hver bað um þennan skóla?!!!”
“Svona á skóli að vera!!!”
Nánari upplýsingar veitir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, forstöðumaður kynningarmála hjá Mosfellsbæ s. 894 9050.
Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla er til viðtals í s. 694 1859
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar er til viðtals í s. 862 0012
Hvernig varð þessi skóli til?
Þessi dagur á sér nokkurn aðdraganda sem hófst á byrjun tíunda áratug síðustu aldar hér í Mosfellsbæ með umræðu um tengslum milli skólastiga. Verkefnið “Brúum bilið” hér í Mosfellsbæ, sem þá fór af stað, snerist meðal annars um að auka samvinnu milli tveggja fyrstu skólastiganna, leikskóla og grunnskóla. Rætt var um að auðvelda þyrfti börnum þau miklu umskipti sem þá urðu í umhverfi barnanna þegar þau fóru úr leikskólum í grunnskóla.
Í framhaldi af þessari umræðu fór fræðslunefndin að skoða ýmsar hugmyndir um skólastarf á mörkum leik- og grunnskóla. Í kjölfarið ákváðu bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að bjóða upp á nám fyrir fimm ára börn við grunnskólana.
Þess má geta að mikil breyting hafði orðið á skólagöngu barna á leikskólaaldri á tiltölulega stuttum tíma. Um miðjan tíunda áratuginn var eingöngu um helmingur barna í leikskóla og einungis elstu börnin í vistun allan daginn. Nú eru nánast öll börn í heilsdagsvistun frá tveggja ára aldri. Þau eru því búin að ganga í skóla í fjögur ár þegar þau koma upp í grunnskóla. Því þótti ástæða til að skoða hvort ekki væri þörf á að bregðast við þessum breytingum og búa svo um hnútana að meira samhengi yrði milli tveggja fyrstu skólastiganna.
Árið 2002 hófst undirbúningur að því að bjóða upp á fimm ára deildir við grunnskóla Mosfellsbæjar með þetta fyrir augum. Fyrsta leikskóladeildin tók starfa í Varmárskóla 2004 og tveimur árum síðar við Lágafellsskóla.
Þetta olli breytingu á þessum skilum en í framhaldinu spannst umræða um að verið væri að taka æskuna burt frá grunnskólabörnum og setja þau of snemma í grunnskóla. Kom þá upp hugmynd að setja upp leikskóla með grunnskóladeildum. Fyrst var umræða um að samþætta fyrstu tvo bekkina í grunnskóla við leikskóla en eftir nánari umræður og skoðun var niðurstaðan að fyrstu fjórir bekkir grunnskólans ættu vel heima með leikskóla.
Ástæðan fyrir því er tvíþætt, annars vegar sú að yngsta stig grunnskólans er skilgreint sérstaklega sem fjórir bekkir sem lýkur til að mynda með samræmdum próf sem skólinn geti því notað sem einn af mælikvörðun sínum um árangur. Hins vegar þótti henta að bjóða upp á nám fyrstu fjóra bekki grunnskólans því börn á þeim aldri þurfa heilsdagsummönnun og sækja frístundasel sem tengist hugmyndum um heilsdagsskóla sem Mosfellsbær starfar eftir. Einnig þótti það henta vel því samfélagi sem við höfum skapað, að bjóða upp á nám allan ársins hring fyrir börn á þessum aldri.
Það má segja að þetta fyrirkomulag sé í raun viðbrögð við breyttu samfélagi og aukin þjónusta við börn og foreldra í Mosfellsbæ.
Það er því með miklu stolti sem við tökum í notkun þennan framsækna og fallega skóla hér í dag. Hann er vitnisburður um þá miklu áherslu sem bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ setja á skólamál og þá miklu gerjun sem á sér stað á því sviði hér í bæ. Ég óska okkur öllum til hamingju með hinn nýja Krikaskóla.
Um gjöf bæjarstjórnar Mosfellsbæjar til nemenda Krikaskóla í tilefni vígslunnar:
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar færir nemendum Krikaskóla hér táknræna en jafnframt hagnýta gjöf í anda þess starfs sem hér verður unnið.
Við færum ykkur hér með níu trjátegundir, eina tegund fyrir hvern árgang sem verður í skólanum. Börnunum er falið að planta trjánum og hugsa um þau. Hver árgangur fær í sína umsjón eitt tré.
Trénu fylgir bók með upplýsingum um hina tilteknu trjátegund og óskar bæjarstjórn eftir því að í bókina verði skráð saga trésins í áranna rás. Lagt er til að vöxtur trésins verði mældur árlega og teknar af því ljósmyndir við hver árstíðaskipti. Þar má líka skrá hvaðeina það sem börnunum þykir áhugavert varðandi tréð.
Hugsunin er sú að hver árgangur í senn eigi ákveðna trjátegund. Eins árs börn eigi birki, tveggja ára, lerki, þriggja ára, furu og þar fram eftir götunum. Þannig muni nemandi í Krikaskóla kynnast náið og fylgjast með níu trjátegundum á skólagöngu sinni og gera athuganir á þeim.