Þann 25. september var haldinn sameiginlegur fræðsludagur leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ. Starfsmönnum í frístundastarfi og dagforeldrum bauðst að taka þátt í deginum ásamt öllum starfsmönnum skólanna og voru þátttakendur hátt í 400 manns.
Þann 25. september var haldinn sameiginlegur fræðsludagur leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ. Starfsmönnum í frístundastarfi og dagforeldrum bauðst að taka þátt í deginum ásamt öllum starfsmönnum skólanna og voru þátttakendur hátt í 400 manns.
Mosfellsbær einn vinnustaður
Í upphafi dagskrárinnar bauð bæjarstjóri þátttakendur velkomna og sagði frá nýrri framtíðarsýn og áherslum Mosfellsbæjar. Benti hann sérstaklega á þá áherslu að mikilvægt væri að líta á Mosfellsbæ sem einn vinnustað og að sameiginleg gildi hafi nýst vel til þess að stuðla að því.
Í kjölfar þess ræddi Anna Steinsen tómstunda- og félagsmálafræðingur um hrós og hvatningu til að byggja upp liðsanda á vinnustöðum, áhrif þess á daglegt líf í vinnunni og mikilvægi þess að gera það á réttan hátt.
Að því loknu völdu starfsmenn sér vinnustofur og voru 13 slíkar í boði. Þar var unnið með ólík viðfangsefni eins og Google Classroom, leiki sem verkfæri, kyrrð í kennslustofunni, að auka vellíðan og seiglu, mataræði og heilsu, svo dæmi séu tekin.
Samvinna og tengsl þvert á skólastig
Þessi samvinna veitti starfsmönnum tækifæri á að mynda tengsl og fræðast á milli skólastiga og mun án efa nýtast starfsfólki leik- og grunnskóla í þeirra störfum.
„Ég tel að sú leið sem við völdum, þ.e. að vinna að fræðslu þvert á skólastig, hafi tekist einkar vel. Skipulag og verkefni dagsins hafa orðið til þess að þétta raðirnar enn frekar í upphafi vetrarstarfsins og umræðurnar muni eiga sinn þátt í að gera gott skólastarf í Mosfellsbæ enn betra,“ sagði Linda Udengard, framkvæmdastjóri skóla- og frístundasviðs Mosfellsbæjar