Nýlega sendu íbúar við Ásland, Bæjarás, Hlíðarás, Fellsás og Brúnás bæjaryfirvöldum undirskriftalista þar sem lokun á tengingu Áslands við Vesturlandsveg var mótmælt. Lokunin kom til framkvæmda í haust í tengslum við tvöföldun Vesturlandsvegar. Íbúarnir fóru fram á að áfram yrði mögulegt að beygja af Vesturlandsvegi inn í Ásland …
Nýlega sendu íbúar við Ásland, Bæjarás, Hlíðarás, Fellsás og Brúnás bæjaryfirvöldum undirskriftalista þar sem lokun á tengingu Áslands við Vesturlandsveg var mótmælt. Lokunin kom til framkvæmda í haust í tengslum við tvöföldun Vesturlandsvegar. Íbúarnir fóru fram á að áfram yrði mögulegt að beygja af Vesturlandsvegi inn í Ásland (hægri beygja) og úr Áslandi til hægri inn á Vesturlandsveg. Skipulagsnefnd fjallaði um erindi íbúanna 20 september s.l. og á grundvelli eindreginnar andstöðu Vegagerðarinnar og álitsgerðar Almennu Verkfræðistofunnar var það niðurstaða nefndarinnar að leggjast gegn enduropnun gatnamótanna. Niðurstaða nefndarinnar var kynnt á fundi með íbúunum 11. október s.l. og 20 október birtist eftirfarandi grein í Mosfellingi, undirrituð af öllum nefndarmönnum, þar sem gerð er nánari grein fyrir sjónarmiðum nefndarinnar:
Lokun Áslands
Kæri Mosfellingur, okkur í skipulagsnefnd langar að koma á framfæri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í nefndinni í kjölfar undirskriftalista frá íbúum í Áslandshverfi sem óskuðu eftir breytingum á skipulagi þannig að Áslandið yrði áfram opið frá Vesturlandsvegi.
Forsaga lokunar við Ásland
Allt frá árinu 1995 hefur aðalskipulag Mosfellsbæjar gert ráð fyrir lokun vegtengingar við Ásland frá Vesturlandsvegi. Árið 2009 var hafist handa við tvöföldun Vesturlandsvegar og var framkvæmdin kynnt íbúum Mosfellsbæjar á kynningarfundi í Hlégarði. Á þeim fundi voru áberandi áhyggjur íbúa í Áslandshverfi af hljóðvörnum en eins og gefur að skilja hefur það verið íbúum hverfisins mikið kappsmál að fá viðunandi hljóðvist. Í ágúst síðastliðnum var íbúum kynnt að nú væri komið að lokun aðkomu frá Vesturlandsvegi og íbúum beint að hringtorginu við Álafosskvos.
Íbúar mótmæltu
Í kjölfar lokunar mótmæltu íbúar hverfisins þessari tilhögun með undirskriftarlista sem afhentur var bæjarstjóra. Skipulagsnefnd fékk það verkefni að fara yfir skipulagið og kanna hvort hægt væri að koma til móts við íbúa sem fóru fram á að hægt væri að taka hægri beygjur inn og út af Vesturlandsvegi við Ásahverfið. Allar framkvæmdir sem tengjast Vesturlandsvegi verður að vinna í samvinnu við Vegagerðina þar sem vegurinn er þeirra en skipulagsvaldið okkar. Nefndin byrjaði á að senda Vegagerðinni erindi og óskaði eftir afstöðu þeirra til enduropnunar.
Afstaða fagaðila
Afstaða Vegagerðarinnar er skýr, hafnar hún alfarið að vegtenging Áslands við Hringveg 1 í Mosfellsbæ verði opnuð á ný. Afstaða Vegagerðarinnar byggir fyrst og fremst á umferðaröryggi. Einnig leituðum við til óháðra aðila og fengum Almennu verkfræðistofuna til að fara yfir málið. Almenna verkfræðistofan fór yfir hljóðútreikninga í hverfinu og umferðaröryggi við umrædd gatnamót og kemst að sömu niðurstöðu og sérfræðingar Vegagerðarinnar, að ekki sé ráðlagt að opna fyrir aðkomu að Áslandshverfi frá Vesturlandsvegi. Ástæðan er bæði sú að núverandi aðkoma sé betri út frá umferðaröryggi og síðan að viðunandi hljóðvist náist ekki í hverfinu nema með því að loka aðkomunni svo hægt sé að byggja þar hljóðeinangrandi vegg.
Niðurstaða skipulagsnefndar
Á fundi sínum þann 20. sept. afgreiddi skipulagsnefnd umrætt erindi íbúa, nefndin fylgir afstöðu fagaðila og leggst gegn enduropnun. Rökin eru fyrst og fremst umferðaröryggi. Sú tenging sem íbúar keyra um nú er öruggari en hægri beygja inn og út af Vesturlandsvegi. Í öðru lagi er ljóst að viðunandi hljóðvist fæst ekki í hverfinu nema með lokun við Ásland. Ef ráðist yrði í breytingar til að hægt væri að taka hægri beygju frá Vesturlandsvegi inn í hverfið yrði að gera frárein sem uppfyllir umferðaröryggisstaðla. Slík frárein yrði alfarið á kostnað Mosfellsbæjar og áætlað er að slík framkvæmd kosti um 40 milljónir króna. Ef koma ætti til móts við kröfur íbúa kostar það umtalsverða fjármuni auk þess sem viðunandi hljóðvist næst ekki í hverfinu og umferðaröryggi yrði síðra.
Fundur með íbúum
Þriðjudaginn 11. okt. var boðað til fundar með íbúum hverfisins þar sem farið var yfir rökstuðning lokunarinnar. Á fundinn var vel mætt og ýmsar góðar ábendingar komu frá íbúum. Merkingum er til að mynda ábótavant og er verið að bæta úr því. Einnig komu fram ábendingar um að núverandi hljóðveggur væri ekki nægjanlegur og þörf væri á frekari hljóðvörnum. Verið er að skoða hvort hægt sé að koma til móts við þær ábendingar. Ýmsar frekari ábendingar komu um umhverfis- og öryggismál í hverfinu og er vert að þakka fyrir það.
Skipulagsnefnd og starfsmenn bæjarins munu reyna eins og hægt er að koma til móts við þessar ábendingar. Sumir virðast sáttir við útskýringar og endanlega ákvörðun en aðrir eru það ekki. Því miður er ekki hægt að koma til móts við óskir allra en það er skoðun okkar í nefndinni að núverandi fyrirkomulag þjóni best hagsmunum heildarinnar.
Skipulagsnefnd:
Bryndís Haralds, Elías Pétursson, Erlendur Örn Fjeldsted, Hanna Bjartmars, Jóhannes Bjarni Eðvarðsson, Jón Guðmundur Jónsson