Alls hafa 85% Mosfellinga áhuga á að taka þátt í málefnum sveitarfélagsins og flestir vilja taka þátt með rafrænum hætti. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Mosfellsbær gerði í því skyni að kanna áhuga íbúa í þátttöku í málefnum sveitarfélagsins.
Alls hafa 85% Mosfellinga áhuga á að taka þátt í málefnum sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Mosfellsbær gerði í því skyni að kanna áhuga íbúa í þátttöku í málefnum sveitarfélagsins.
Könnunin er liður í vinnu starfshóps um lýðræðismál í Mosfellsbæ sem skipaður er fulltrúum úr öllum flokkum í bæjarstjórn og hefur það verkefni að vinna drög að lýðræðisstefnu fyrir sveitarfélagið. Könnunin var rafræn og send út á póstlista mos.is, auglýst í Mosfellingi og sett á Facebook síðu Mosfellsbæjar. Alls tóku rúmlega 300 manns þátt.
Starfshópurinn hélt vel heppnaðan fræðslufund um íbúalýðræði á dögunum þar sem Gunnar Helgi Kristinsson,prófessor í stjórnmálafræði Háskóla Íslands og Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, fluttu erindi um íbúalýðræði. Þá stóð nefndin fyrir vinnufundi 50 íbúa sem valdir höfðu verið af handahófi til þátttöku í hugmyndavinnu um lýðræðismál í sveitarfélaginu. Niðurstöður þess fundar verða birtar á vef Mosfellsbæjar og munu verða nýttar í vinnu nefndarinnar við gerð nýrrar lýðræðisstefnu.
Langflestir vilja taka þátt
Meðal þess sem spurt var um í könnuninni var: „Hefur þú áhuga á að taka virkan þátt í mótun samfélagsins hér í Mosfellsbæ? Með því er átt við þátttöku á fundum um tiltekin málefni, skoðanakönnunum og fleira.“ Alls svöruðu 85% íbúa þeirri spurningu játandi.
Þegar nánar var spurt út í hvers kyns fyrirkomulag þátttakendum hugnaðist til þátttöku í málefnum sveitarfélagsins svöruðu rúm 80% að þeim hugnaðist best rafrænar skoðanakannanir. Rúmum 40% þóttu kynningarfundi rum tiltekin málefni heppilegt fyrirkomulag og um þriðjungi þótti íbúakosningar koma til greina. Fjórðungur taldi íbúaþing og samráðsfundir með kjörnum fulltrúum heppilegir og ögn minni hópi þótti ráðlegt að stofna nefndir íbúa um tiltekin málefni. Þess má geta að hægt var að merkja við fleiri en einn svarmöguleika í þessari spurningu.
Mosfellsbær hefur haldið tíu íbúafundi um hin ýmsu málefni á síðustu tveimur árum. Rúm 40% svarenda höfðu ekki mætt á neinn þeirra en fleistir mættu á skólaþing, fjórðungur svarenda.
Þá var spurt um tímasetningar funda. Flestir þeir sem svöruðu könnuninni völdu að hafa fundi á virkum dögum eftir kvöldmat, eða tæpur helmingur. Þrír af hverjum fjórum töldu vef Mosfellsbæjar heppilegasta vettvanginn til að auglýsa fundi og viðburði á vegum sveitarfélagsins en rúm 60% nefndu Mosfelling.
Nánari upplýsingar um könnunina, störf nefndarinnar og íbúafundina er að finna á www.mos.is/lydraedisnefnd. Þar er jafnframt hægt að sjá upptökur af fræðslufundinum.
Frétt þessi birtist í Mosfellingi sem kemur út í dag.