Alls bárust 40 tillögur í hönnunarsamkeppni um nýjan framhaldsskóla sem reisa á í miðbæ Mosfellsbæjar. Um er að ræða u.þ.b. 4000 m² byggingu sem staðsett verður við Háholt.
Framkvæmdasýsla ríkisins fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Mosfellsbæjar bauð til opinnar hönnunarsamkeppni (framkvæmdasamkeppni) um Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Um er að ræða u.þ.b. 4000 m² byggingu sem staðsett verður í miðbæ Mosfellsbæjar nánar tiltekið við Háholt.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er framhaldsskóli sem kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og verða þær áherslur samfléttaðar við skólastarfið. Þar er átt jafnt við auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir. Ennfremur er stefnt að því að gera umhverfi skólans að lifandi þætti í skólastarfinu þar sem hugað verður m.a. að náttúrufræði umhverfisins, virðingu fyrir umhverfinu og hvernig njóta má umhverfisins og nýta á skynsamlegan hátt.
Skólinn er framhaldsskóli með áfangasniði og lögð er áhersla á að bjóða nemendum metnaðarfullt nám við hæfi hvers og eins, á stúdentsbrautum, stuttum starfsnámsbrautum og almennum brautum. Það endurspeglast í námsframboði skólans á þann hátt að þó að skólinn sé að stærstum hluta bóknámsskóli, mun hann bjóða fram nám í verknáms- og handverksgreinum og listgreinum til að auka fjölbreytni námsins.
Samkvæmt upplýsingum frá dómnefnd er gert ráð fyrir að dómnefndarstörfum ljúki fyrir miðjan apríl og verði þá tilkynnt um úrslit.