Evrópski tungumáladagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 2001. Meginmarkmiðið með honum er að sýna fram á mikilvægi þess að læra tungumál, leiða í ljós gildi þess að vera fjöltyngdur og byggja brýr á milli ólíkra tungumála- og um leið menningarheima.
Evrópski tungumáladagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 2001. Meginmarkmiðið með honum er að sýna fram á mikilvægi þess að læra tungumál, leiða í ljós gildi þess að vera fjöltyngdur og byggja brýr á milli ólíkra tungumála- og um leið menningarheima.
Á þessum degi er ýtt undir símenntun, í og utan skóla, og ungir sem gamlir hvattir til að læra ný tungumál. Einnig eru stjórnvöld hvött til að auðvelda fólki að læra tungumál og styðja við stefnumótun til að stuðla að meiri tungumálakunnáttu. Einnig er lögð áhersla að fólk geri sér far um að horfa út fyrir hinn enska tungumálaheim.
Í tilefni dagsins eru skipulagðir viðburðir alls staðar í Evrópu; í skólum, sjónvarpi, útvarpi, með tungumálakennslu og með málþingum og ráðstefnum.
STÍL, Samtök tungumálakennara á Íslandi, hafa haldið upp á daginn hér á landi allar götur síðan 2001. STÍL eru heildarsamtök allra tungumálakennara á Íslandi og telja Félag dönskukennara, Félag enskukennara, Félag frönskukennara, Félag þýskukennara, Félag ítölskukennara, Ísbrú félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál, Félag norsku- og sænskukennara og Félag spænskukennara.
Hátíðarhöldin fara aðallega fram í skólum landsins þar sem haldið er upp á þennan dag með sérstakri dagskrá þar sem nemendur allra skólastiga frá leikskóla til háskólastigs koma saman. Í mörgum skólum er um mjög metnaðarfulla dagskrá að ræða – jafnvel vikudagskrá – þar sem nemendur og kennarar koma að til að sýna fram á mikilvægi tungumála.
Kunnátta í erlendum tungumálum er afar mikilvæg á tímum alþjóðavæðingar. Aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið okkar heim og þörfin fyrir kunnáttu í erlendum tungumálum því mikil. Erlend börn hafa aldrei verið fleiri í skólum landsins og því afar brýnt að kenna íslensku sem annað mál. Það er aldrei of seint að læra tungumál og því fleiri því betra. Að læra tungumál er að læra – og skilja – menningu.
STÍL vill beina því til stjórnvalda að efla tungumálanám og kennslu á Íslandi. STÍL óskar öllum tungumálanemum og kennurum til hamingju með daginn!
– Petrína Rós Karlsdóttir, formaður STÍL – Samtaka tungumálakennara á Íslandi.