Mikið hefur mætt á snjómokstri undanfarið og hafa öll tæki verið úti og sinnt mokstri á götum og stígum.
Mikið hefur mætt á snjómokstri undanfarið og hafa öll tæki verið úti og sinnt mokstri á götum og stígum eftir þeirri áætlun sem unnið er eftir hjá Mosfellsbæ. Þá er hálkuvörnum sinnt samkvæmt áætlun.
Vegna mikillar ofankomu í febrúar, blota í snjó og skjótra veðrabrigða, er enn víða mikill klaki og mjög erfiðar aðstæður til hreinsunar og á það við um íbúðargötur sem ekki eru í fyrsta forgangi. Fyrsti forgangur er ávallt meginsamgönguæðar sem tryggja bæði strætóleiðir og skólaakstur.
Úrlausnarefnið í augnablikinu eru skorningar í húsagötum og ljóst að hefðbundin snjóruðningstæki duga skammt og hreinsun mun því taka tíma. Aðstæður sem þessar hafa ekki sést á höfuðborgarsvæðinu í fjölda ára.
Ef íbúar vilja koma á framfæri ábendingum um einstaklega erfiðar aðstæður í húsagötum er sem fyrr unnt að tilkynna það í gegnum ábendingakerfi Mosfellsbæjar.