Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðilegur laugardaginn 16. september. Þetta er í sjöunda sinn sem íslenskri náttúru er fagnað á þessum degi en hann ber upp á afmælisdegi Ómars Ragnarssonar ár hvert.
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðilegur laugardaginn 16. september. Þetta er í sjöunda sinn sem íslenskri náttúru er fagnað á þessum degi en hann ber upp á afmælisdegi Ómars Ragnarssonar ár hvert. Sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita en þann 16. september 2010, á 70 ára afmæli Ómars Ragnarssonar, var ákveðið að sá dagur yrði upp frá því tileinkaður íslenskri náttúru.
Markmiðið með degi íslenskrar náttúru er að beina sjónum landsmanna að hinni einstöku náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum.
Dagur íslenskrar náttúru í Mosfellsbæ
Á Degi íslenskrar náttúru er kjörið tækifæri að beina sjónum að þeim auði sem felst í íslenskri náttúru, í stóru og smáu samhengi. Íbúar í Mosfellsbæ eru hvattir til að nýta sér fjölbreytt úrval hjólastíga til útivistar í fallegri náttúru.
Í Mosfellsbæ munu börnin á leikskólanum Hlíð í Mosfellsbæ gróðursetja birkitré í útistofu sem staðsett er í klettum á opnu svæði vestan við leikskólann. Útistofan kallast Skógarhlíð. Fjögur tré eru gróðursett, eitt fyrir hverja deild. Eftir gróðursetningu fá börnin sér hressingu í Skógarhlíð.
Dagana 16.- 22. september er Evrópsk Samgönguvika sem Mosfellsbær tekur þátt í. Átakið er árlegt og er yfirskriftin í ár “Förum lengra – samferða”. Mosfellsbær verður með spennandi viðburði í þessu útivistarátaki. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.