Hitaveita Veitna breytti í júní afhendingu heits vatns í Mosfellsbæ og nokkrum hverfum Reykjavíkur.
Þau fá upphitað vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Um tímabundna aðgerð er að ræða en ráðgert er að þessi tilhögun standi fram til um 20. ágúst. Svipað fyrirkomulag var haft á afhendingu vatns í nokkrum hverfum um tíma sl. sumar og gafst það vel.
Helsti munurinn á virkjanavatni og jarðhitavatni er að jarðhitavatn kemur úr borholum og er veitt beint úr holunum og inn á dreifikerfið en virkjanavatnið er upphitað grunnvatn. Ekki er marktækur munur á þessum tveimur tegundum af vatni þannig að notendur ættu ekki að finna mun á vatninu, utan þess að örlítið minni lykt af brennisteinsvetni gæti verið af vatninu. Engar breytingar verða á hitastigi eða þrýstingi í hitaveitunni við skiptin.
Létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum
Þessari tímabundnu aðgerð er ætlað að stækka dreifisvæðið sem fær virkjanavatn til að nýta betur framleiðslugetu virkjana. Á meðan er létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ sem gerir mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn. Aukin notkun heits vatns á hvern einstakling, mikil uppbygging og þétting byggðar í þeim hverfum sem nýta jarðhitavatn skapar álag á jarðhitasvæðin sem bregðast þarf við. Í sögulegu samhengi er staðan þokkaleg en til að tryggja sjálfbærni þessarar dýrmætu auðlindar til framtíðar þarf að auka hlut virkjanavatnsins og minnka hlut jarðhitavatnsins.