Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar tekur þátt í átaki á söfnun skjala kvenna á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna sem stendur yfir á þessu ári. Átakið er samstarfsverkefni handritadeildar Landsbókasafns-Háskólabókasafns, kvennasögusafns, Þjóðskjalasafns, Borgarskjalasafns og héraðsskjalasafna um land allt.
Þann 19. mars var hrint af stað átaki við söfnun á skjölum kvenna í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar tekur þátt í því átaki.
Átakið er samstarfsverkefni handritadeildar Landsbókasafns-Háskólabókasafns, kvennasögusafns, Þjóðskjalasafns, Borgarskjalasafns og héraðsskjalasafna um land allt.
Skjalasöfn kvenna eru stórmerkilegar heimildir um líf þeirra og störf. Með skjölum er til
dæmis átt við bréf, dagbækur, póstkort, uppskriftabækur, ljósmyndir eða hvers konar gögn sem verða til í leik og starfi. Slík skjöl eru ómetanleg svo skilja megi betur tímabil breytinga og daglegt líf kvenna.
Því miður hafa fá skjalasöfn kvenna borist Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar og því er vakin athygli á mikilvægi þess að halda til haga slíkum skjölum og varðveita þau.
Hægt er að koma með skjöl til safnsins í Þverholti 2, kjallara, hafa samband á skjalasafn@mos.is eða hringja í síma 5256789/5256700.
Á meðfylgjandi mynd má sjá mynd úr safni Klöru Klængsdóttur, kennara og sundkonu. Myndin sýnir Klöru ásamt bekk sínum fyrir framan Brúarland, í krikum 1940-1945.
Klara Klængsdóttir er kona marsmánaðar 2015 á Bókasafni Mosfellsbæjar en í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna á Íslandi 2015 hafa Bókasafn Mosfellsbæjar og Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar tekið höndum saman og kynna mánaðarlega konu eða konur sem flestar eiga tengingar við Mosfellssveit.