Rekstrarniðurstaða Mosfellsbæjar á fyrri helming ársins var neikvæð um 940 m.kr sem er 500 m.kr lakari niðurstaða en áætlað var.
Rekstrartekjur námu 9.058 m.kr sem er 226 m.kr hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Þar vega þyngst hærri útsvarstekjur. Rekstrargjöld námu 9.141 m.kr sem eru 330 m.kr umfram áætlun. Sá munur skýrist helst af hærri útgjöldum til málefna fatlaðra, auknum kostnaði vegna snjómoksturs og hærri viðhaldskostnaðar.
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða er því 83 m.kr, eða um 104 m.kr lakari en áætlað var. Daglegur rekstur sveitarfélagsins er því sem næst í samræmi við þau markmið um þjónustu og kostnað við að veita hana sem lagt var upp með í fjárhagsáætlun ársins.
Það sem vegur þyngst í lakari rekstrarniðurstöðu tímabilsins er mun hærri verðbólga en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Því eru fjármagnsgjöld 396 m.kr umfram áætlun sem er um 89%.
„Það er ljóst af uppgjörinu að það eru krefjandi tímar í umhverfi sveitarfélaga, ekki bara hér í Mosfellsbæ heldur á landinu öllu. Vaxtaumhverfið sem við búum við hækkar lán sveitarfélaganna – eins og heimilanna í landinu og hefur óneitanlega áhrif á reksturinn. Málaflokkur fatlaðs fólks er annar rekstrarþáttur þar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að stilla saman strengi og óska eftir auknum tekjustofnum til að standa undir þessum mikilvæga rekstri.“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. ,,Til viðbótar eiga eftir að koma útgjöld vegna leigu á kennslustofum fyrir Kvíslarskóla en umfangsmiklar endurbætur hafa staðið þar yfir sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins“.
Ef horft er til fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar til næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir viðsnúningi á rekstrinum að þeim forsendum gefnum að niðursveiflan í hagkerfinu verði skammvinn.