Magnús Tómasson er fæddur árið 1943. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglegu listaakademíuna.
Magnús var einn af frumkvöðlum SÚM hópsins sem var virkur á sjöunda áratugnum og olli straumhvörfum í íslenskri myndlist.
Árið 1999 efndi Mosfellsbær til samkeppni um gerð útilistaverks í Mosfellsbæ. Magnús Tómasson sigraði með tillögu sína að verkinu Hús tímans – hús skáldsins. Verkið byggir á grunnfleti sem er merki Mosfellsbæjar en upp af grunnfletinum rís hár turn úr málmi sem minnir á gotneska boga. Ef horft er á verkið að ofan má aftur greina merki bæjarins en inni í turninum hangir stór steinn í keðju sem nemur við sexhyrnt form sem stendur á grunnfletinum.
Verkið byggir á merki bæjarins í tvennum skilningi. Það er vísun í verk Halldórs Laxness, Hús skáldsins, en um leið er andartakið fangað með formunum inni í turninum sem tákna annars vegar fortíðina og hins vegar framtíðina.
Verk í eigu Mosfellsbæjar
Nafn listaverks: Hús tímans – hús skáldsins. 2000
Efni – aðferð: Grjót og eir, meðhöndlaður með platínu.
Stærð: um 6 metrar
Hvenær keypt: 2000
Staðsetning: Stekkjarflöt