Magnús Pálsson fæddist á Eskifirði árið 1929. Hann lauk stúdentsprófi árið 1948 og hélt utan ári síðar til myndlistanáms í Birmingham á Englandi.
Árið 1953 kom hann heim og nam við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík í eitt ár, eða til ársins 1954. Haustið 1955 fór hann til Vínarborgar þar sem hann nam við Academie für Angewandte Kunst í eitt ár.
Magnús hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í á fjórða tug samsýninga um allan heim. Magnús hefur starfað sem myndlistarkennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og kom þar á fót nýlistadeild í samvinnu við Hildi Hákonardóttur. Hann hefur einnig starfað sem gestakennari við ýmsa skóla í Hollandi og Noregi, auk þess að hafa sett á fót og rekið vinnustofur hér á landi, í Danmörku og Svíþjóð. Auk þess að vera myndlistarmaður hefur Magnús samið nokkur bókverk, leikverk og raddverk.
Verk eftir Magnús eru í eigu fjölmargra opinberra aðila, s.s. Íslandsbanka, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafns Íslands, Kjarvalsstaða, Nýlistasafnsins, Snælandsskóla og Kunstbibliotek, Berlin.
Verk í eigu Mosfellsbæjar
Nafn listaverks: Silfur Egils
Efni – aðferð: Leir
Stærð: 300×180 cm
Staðsetning: Á suður vegg Varmárskóla, eldri deildar
Styrktaraðili: Listskreytingasjóður ríkisins
Nafn listaverks: Askur Yggdrasils. 1980
Efni – aðferð: Vatnslitir
Stærð: 68×54 cm
Hvenær keypt: 1980
Staðsetning: Bæjarskrifstofur 4. hæð í Kjarna