Ásdís Sigurþórsdóttir er fædd í Reykjavík 1954. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980. Hún stundaði framhaldsnám við Ontario College of Art í Toronto veturinn 1994-95 og lauk þaðan prófi í málaralist. Kennararéttindanámi frá Kennaraháskóla Íslands lauk hún 1995.
Ásdís hefur haldið 6 einkasýningar, í Gallerí Langbrók 1982, Gallerí Borg 1985, Gallerí Gangskör 1987, í Menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar 1994, Listasafni Kópavogs 1997 og í EFTA byggingunni í Brussel 1999. Myndir eftir hana voru til sýnis í Loftkastalanum veturinn 1997-98.Hún hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum, m.a. sýningunni Ungir myndlistarmenn á Kjarvalsstöðum 1983, Krakov Biennalnum í Póllandi 1984, Kirkjulistasýningu á Kjarvalsstöðum, Listahátíð kvenna á Kjarvalsstöðum 1986, Kaffi með Kristi á Mokkakaffi 1994, og samsýningu kvenna í Toronto 1995.
Ásdís hefur verið félagi í Íslenskri grafík og tekið þátt í samsýningum félagsins í Norræna húsinu 1981, 1983 og á Kjarvalsstöðum 1986, einnig farandsýningu félagsins sem fór um Norðurlönd og til Eystrasaltsríkjanna.
Hún hlaut 3ja mánaða starfslaun menntamálaráðuneytisins árið 1987 og fór til Japans að kynna sér pappírsgerð og japanska myndlist. Hún hlaut 6 mánaða starfslaun frá Stjórn listamannalauna árið 1996 og viðurkenningu Kópavogskaupstaðar 1997.
Verk eftir Ásdísi eru í eigu Háskóla Íslands, Norræna hússins í Reykjavík, Listasafnsins í Krakov, Mosfellsbæjar, Menningarmiðstöðvar Hafnarfjarðar, Cargolux í Lúxemborg o.fl.
Ásdís kenndi í 10 ár við Myndlistarskóla Kópavogs, en hefur frá því í janúar 2000 rekið Myndlistarskóla Mosfellsbæjar á vinnustofu sinni í Álafosskvos.
Verk í eigu Mosfellsbæjar
Nafn listaverks: Án titils. 1992
Efni – aðferð: Olía á striga
Hvenær keypt: 1992
Staðsetning: Bæjarskrifstofur í Þverholti
Nafn listaverks: Án titils. 1996
Efni – aðferð: Litateikningar
Staðsetning: Leikskólinn Reykjakot