Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2005
Símon hóf gítarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Gunnari H. Jónssyni. Vorið 1975 lauk hann fullnaðarprófi frá skólanum en þá um haustið hóf hann nám við Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Vínarborg hjá prof. Karl Scheit. Þaðan lauk hann einleikaraprófi vorið 1980.
Símon starfaði síðan sem gítarkennari við Tónlistarskólann í Luzern í Sviss, en hefur síðastliðin 13 ár kennt á gítar við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hann kennir auk þess kennslufræði og kammertónlist við sama skóla. Símon hefur sótt námskeið, m. a. til Spánar, Ítalíu, Sviss og Austurríkis, þar sem kennarar hans hafa m. a. verið J. Tomas, M. Gangi, A. Batista, M, Barrueco, T, Korhonen, O. Ghighlia og D. Russel.
Símon hefur einnig sérhæft sig í Flamencotónlist og farið sérstakar námsferðir til Spánar í þeim tilgangi. Símon hefur farið í margar tónleikaferðir bæði hér heima og erlendis. Hann fór meðal annars í nokkrar tónleikaferðir ásamt austurríska gítarleikaranum Siegfried Kobilza, og síðar með sænska gítarleikaranum Torvald Nilsson.
Einnig starfaði Símon í nokkur ár með austurríska orgelleikaranum Orthulf Prunner en þeir gáfu út plötu með samleik gítars og orgels og síðar geisladisk með gítar og klavikord. Einnig gáfu þeir út myndband með leik sínum. Undanfarin ár hefur Símon starfað með fiðluleikaranum Hlíf Sigurjónsdóttur auk þess að spila einleikstónleika. Símon hefur komið margsinnis fram í útvarpi og sjónvarpi og hefur stjórnað útvarpsþáttum um gítar og gítartónlist.
Hann var kosinn til formennsku fyrir hagsmunsamtök tónlistarmanna, Tónlistarbandalag Íslands, 1990 sem stóð m. a. fyrir Ári söngsins og í tengslum við það var gefin út söngbókin Hvað er svo glatt og geisladiskurinn Góðra vina fundur.
Símon stofnaði Kammerkór Mosfellsbæjar árið 2003 og hefur verið stjórnandi hans síðan.