Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2001
Hljómsveitin Sigur Rós var stofnuð undir nafninu Victory Rose í desember 1994. Stofnendur voru þeir Jón Þór Birgisson, gítarleikari og söngvari, og Ágúst Ævar Gunnarsson trommuleikari. Nafngiftina fengu þeir af Sigurrós systur Jóns Þórs, sem fæddist skömmu áður en hljómsveitin var stofnuð. Þegar þeir Jón Þór og Ágúst Ævar fóru í stúdíó með sitt fyrsta lag, Fljúgðu, bættist þriðji maðurinn í hópinn, Georg Hólm bassaleikari. Haustið 1997 kom loks fyrsta plata Sigur Rósar út hjá Smekkleysu. Platan hét Von og fékk prýðis viðtökur. Fjórði maðurinn, Kjartan Sveinsson, bættist við hljómsveitina, maður sem spilaði á allt mögulegt, en átti eftir að setja svip sinn á sveitina sem hljómborðsleikari. Strax var farið að vinna að næstu plötu, Ágætis byrjun, sem Smekkleysa gaf út sumarið 1999, en í millitíðinni var Von endurútgefin mikið endurunnin og með einu nýju lagi, undir nafninu Von-brigði.
Ágætis byrjun fékk frábæra dóma og Sigur Rós fór í tónleikaferð um landið. Þá var Ágúst hættur, en Orri Páll Dýrason tekinn til við trommusláttinn. Smekkleysa gekkst fyrir því að semja við enska útgáfufyrirtækið Fat Cat um útgáfu á Sigur Rós þar í landi og smáskífan Svefn-g-Englar kom út þar í september 1999. Það var strax ljóst að Sigur Rós ætti erindi á enskan markað því í vikunni áður en smáskífan kom út, valdi tónlistartímaritið New Musical Express hana sem smáskífu vikunnar. Það var kominn tími til að spila erlendis og um haustið var haldið í tónleikaferð til Danmerkur og Englands. Umsagnir erlendra blaða um leik Sigur Rósar voru á einn veg – frábær hljómsveit, og Sigur Rós var spáð mikilli velgengni.
Árið 2000 vann Sigur Rós tvö lög fyrir kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Engla alheimsins, írska lagið Bíum bíum bambaló og útvarpsstef Jóns Múla Árnasonar við dánarfregnir og jarðarfarir. Ári síðar voru þrjú lög Ágætis byrjunar notuð í kvikmynd Cameron Crowes, Vanilla Sky.
Hljómsveitin hefur hlotið fjölda viðurkenninga vegna tónlistar sinnar.