Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2020
Óskar er fæddur á Akureyri en hefur verið búsettur í Mosfellsbæ síðan árið 2003. Hann stundaði píanó- og saxófónnám við tónlistarskólann á Akureyri til 1991, lærði við FÍH veturinn 1991-1992 og lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1995. Óskar útskrifaðist með mastersgráðu í útsetningum frá University of Miami. Óskar kenndi við tónlistarskóla FÍH frá 1999-2010. Auk píanóleiks og kórstjórnar spilar hann á flautu, saxófón og klarinett.
Gospeltónlist er sú tegund tónlistar sem Óskar er þekktastur fyrir. Hann var stofnandi og stjórnandi Gospelkórs Reykjavíkur og hefur verið tónlistarstjóri Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík í tæp 30 ár. Hann hefur sett upp fjölda tónleika, og auk þess gefið út sex geislaplötur og tvo mynddiska með kórnum í Fíladelfíu.
Frá árinu 2019 hefur Óskar starfað sem tónlistarstjóri í Lindakirkju í Kópavogi og stýrir þar öflugum kirkjukór sem heldur reglulega gospeltónleika.
Óskar hefur einnig komið að tónlistarstjórnun í leikhúsi og dægurtónlist. Hann starfaði við Leikfélag Akureyrar 1990-1991 og við Borgarleikhúsið frá 1991-2001. Þar samdi hann m.a. tónlist við barnaleikritið Móglí, útsetti og stjórnaði tónlistarflutningi í Kysstu mig Kata og útsetti tónlist í söngleiknum Annie sem sýndur var í Austurbæ 2006. Óskar hefur útsett og stjórnað upptökum á geisladiskum m.a. fyrir Pál Rósinkranz, Heru Björk, Ragnar Bjarnason, Garðar Cortes, Dísellu Lárusdóttur, Snörurnar, Stuðmenn og fjölmarga kóra. Hann hefur auk þess unnið með tónlist fyrir útvarp og sjónvarp.
Árið 2017 útsetti Óskar bakraddir fyrir lagið Paper sem tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd. Flytjandi lagsins var Svala Björgvinsdóttir og fór Óskar ásamt bakraddasöngvurum til Kiev í Úkraínu.