Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2010
Jón Kalman fæddist í Reykjavík 17. desember 1963 og bjó þar til 12 ára aldurs en flutti þá til Keflavíkur. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og flutti svo aftur til Reykjavíkur árið 1986.
Jón Kalman lagði stund á bókmenntafræði við Háskóla Íslands á árunum 1986 til 1991. Hann kenndi bókmenntir við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Einnig skrifaði hann greinar og gagnrýndi bækur fyrir Morgunblaðið í nokkur ár. Jón bjó í Kaupmannahöfn 1992 til 1995 og sinnti ýmsum störfum þar. Hann flutti í Mosfellsbæ árið 1996 og starfaði sem bókavörður við Bókasafn Mosfellsbæjar frá hausti það ár til vors 2000. Síðan þá hefur hann verið starfandi rithöfundur.
Jón Kalman hefur sent frá sér fjölda bóka; ljóð, skáldsögur, þýðingar og smásagnasafn. Hann hefur þýtt talsvert af bókmenntum, aðallega ljóð og skáldsögur.
Jóni Kalman hafa hlotnast ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf. Þrjár af bókum hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Sumarið bak við brekkuna 2001, Ýmislegt um risafurur og tímann 2004 og Sumarljós, og svo kemur nóttin 2007. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 fyrir skáldsöguna Sumarljós, og svo kemur nóttin. Jón hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir Himnaríki og helvíti 2007 og Harm englanna 2009 sem valdar voru besta skáldsaga ársins. Þá fékk hann viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins árið 2006.
Bækur Jóns Kalmans hafa verið þýddar á þýsku, sænsku, dönsku, norsku, ensku, hollensku og frönsku og fengið góðar viðtökur.