Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2006
Jóhann fæddist 2. júlí 1939 í Reykjavík. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1956 og var við prentnám í Iðnskóla Reykjavíkur til 1959. Sama ár fór hann í spænskunám við Háskólann í Barcelona og svo aftur árið 1965. Jóhann starfaði hjá Póst- og símamálastofnun frá 1954-1985 og gegndi m.a. stöðu póstfulltrúa og útibússtjóra og síðan blaðafulltrúa frá 1985-1990.
Hann var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1966 og leiklistargagnrýnandi sama blaðs árin 1967-1988. Jóhann hafði umsjón með bókmenntaþáttum í Ríkisútvarpinu en frá 1990 hefur hann verið bókmenntagagnrýnandi að aðalstarfi.
Jóhann var í stjórn Félags íslenskra rithöfunda og Rithöfundasambands Íslands 1968-1972. Hann var í dómnefnd bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1981-1990 og formaður nefndarinnar frá 1987-1989. Auk þess gegndi hann ýmsum nefndarstörfum hjá Pósti og síma og Samgönguráðuneytinu 1985-1990.
Jóhann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og kom fyrsta bókin, Aungull í tímann, út árið 1956. Ljóð Jóhanns hafa verið þýdd á mörg tungumál og birst í safnritum víðs vegar um heiminn. Ljóðabókin Hljóðleikar (2000) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2003. Jóhann hefur einnig þýtt ljóð fjölmargra erlendra höfunda. Ljóð Jóhannas og þýðingar njóta mikillar virðingar og jafnframt hefur hann samið einstakar fræðibækur um bókmenntir og ljóð.
Jóhann hefur verið búsettur í Mosfellsbæ í fjölda ára og verður fyrsti ritlistamaður sem fengi sæmdarheitið Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.