Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1997
Inga Elín fæddist 1957. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík á árunum 1972-1974, og síðar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands með hléum frá árinu 1974 til 1982. Árin 1983-1988 nam hún síðan leirlist og glerlist við Skolen for Brugskunst í Kaupmannahöfn.
Frá árinu 1989 hefur Inga Elín haldið fjölda einkasýninga á verkum sínum hér á landi auk þess að hafa haldið sýningu í London árið 1992. Að auki hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga, bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum.
Inga Elín hefur starfað í fulltrúaráði Sambands íslenskra myndlistarmanna og verið þar í stjórn á árunum 2000 til 2002. Hún starfaði sem myndmenntakennari í Mosfellsbæ um nokkurra ára skeið og rak um árabil listhúsið Gallerí Inga Elín í Reykjavík.
Ingu Elínu hafa hlotnast margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín.