Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2004
Guðrún er ættuð úr Mosfellssveit og ólst hér upp í bernsku. Hún hneigðist ung til tónlistar og söng mikið með ýmsum kórum og tónlistarmönnum áður en hún fór í söngnám í Bandaríkjunum árið 1948. Tíu árum seinna kom Guðrún aftur til Íslands og hélt hún fjölda einsöngstónleika auk tónleika með öðrum tónlistarmönnum. Guðrún hélt síðan aftur til Bandaríkjanna í framhaldsnám.
Árið 1964 fluttu Guðrún og Frank til Íslands, festu kaup á Brennholti í Mosfellsdal og búa þar enn. Ásamt tónleikahaldi og söng við ýmis tækifæri hefur Guðrún starfað mikið við söngkennslu og raddþjálfun kóra. Gefin hefur verið út hljómplata með söng Guðrúnar og hefur hún hlotið listamannalaun og Fálkaorðu fyrir störf sín að tónlist. Guðrún hefur um árabil verið einn virtasti söngvari og söngfræðari Íslands.
Frank Ponzi fæddist í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru af ítölskum ættum og fluttust til Ameríku 1911. Frank er menntaður listfræðingur og starfað sem listamaður, einkum sem myndlistarmaður og rithöfundur. Ævistarf hans hefur verið helgað listum og menningarmálum í víðum skilningi. Einstakt og trúlega merkilegasta framlag hans er bókaflokkur sem hann hefur skrifað og safnað efni í með áralöngum rannsóknum og fjallar um útlendinga sem hafa sótt Ísland heim á fyrri öldum og túlkað land og þjóð í myndlist.
Frank og Guðrún hafa verið nokkurskonar menningarlegir sendiherrar í sinni sveit um árabil í þau 40 ár sem þau hafa búið í Mosfellsbæ. Tilnefning menningarmálanefndar er hugsuð sem heiður fyrir langt ævistarf til marghæfra listamanna.