Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2008
Guðný Halldórsdóttir, kvikmyndagerðarmaður, er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og hefur á 25 ára ferli verið áberandi listamaður í íslensku samfélagi bæði sem handritshöfundur og kvikmyndaleikstjóri.
Það sem einkennir verk hennar er ákveðin breidd í verkefnavali. Þær kvikmyndir sem hún hefur unnið að spanna vítt svið mannlífsflórunnar og hefur Guðný verið jafnvíg í gerð gamanmynda sem og dramatískra kvikmynda á borð við Ungfrúin góða og húsið. Veðramót er hennar nýjasta kvikmynd þar sem umfjöllunarefnið er viðkvæmt og flókið. Að koma slíku efni í kvikmynd er einungis á færi áræðins og þroskaðs listamanns sem Guðný er.
Guðný hefur sannarlega borið hróður Mosfellsbæjar víða með kvikmyndum sínum og markað djúp spor í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Listaverk hennar munu án efa lifa áfram um ókomin ár.