Markmið stuðningsþjónustu (félagslegrar heimaþjónustu) er að efla fólk til sjálfshjálpar og gera því kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Þjónustan er veitt þeim sem þarfnast hennar vegna skertrar færni, fjölskylduaðstæðna, veikinda, fötlunar o.fl.
Umsókn
Starfsfólk velferðarsviðs metur þjónustuþörf umsækjanda. Í umsókninni skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda, sem og maka ef það á við, m.a. um persónulegar aðstæður, lögheimili og yfirlit yfir tekjur.
Þá skal umsækjandi jafnframt leggja fram:
- Vottorð sérfræðings sem staðfestir þörf umsækjanda fyrir þjónustu
- Yfirlit yfir greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins þegar það á við
- Ef umsækjandi óskar eftir ívilnun vegna greiðslu á gjaldi fyrir þjónustuna skal hann leggja fram staðfest afrit skattframtals
Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um fyrir sína hönd.
Í sérstökum tilfellum og við endurnýjun umsóknar getur starfsfólk velferðarsviðs aflað þessara gagna skriflega eða með símatali við sérfræðing með samþykki umsækjanda.
Hvað er stuðningsþjónusta?
Stuðningsþjónusta getur t.d. verið fólgin í:
- Aðstoð við persónulega umhirðu.
- Aðstoð við heimilishald.
- Félagslegur stuðningur.
- Heimsending matar.
- Aðstoð við þrif.
- Aðstoð við umönnun barna og ungmenna.
Heilsugæslustöð Mosfellsumdæmis sér um heimahjúkrun og baðþjónustu fyrir aldraða.
Starfsmenn Eirar, hjúkrunarheimilis sjá um framkvæmd þjónustunnar samkvæmt samningi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og Eirar, hjúkrunarheimilis.
Hver getur sótt um?
Þau sem eiga lögheimili í bæjarfélaginu og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu geta sótt um stuðningsþjónustu. Leitast er við að veita þá þjónustu sem viðkomandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir.
Afgreiðsla umsókna og áfrýjunarleiðir
Trúnaðarmálafundur velferðarsviðs fjallar um umsóknir um stuðningsþjónustu og afgreiðir þær í samræmi við reglur þar að lútandi.
Umsækjandi getur áfrýjað afgreiðslu fundarins til velferðarnefndar Mosfellsbæjar.
Áfrýjun skal borin fram skriflega innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um afgreiðslu umsóknar.
Umsækjandi getur áfrýjað ákvörðun velferðarnefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála.