Samþykkt um niðurgreiðslu á vistunarkostnaði barna í leikskólum Mosfellsbæjar, í leikskólum sem reknir eru af öðrum en Mosfellsbæ og hjá sjálfstætt starfandi dagforeldrum.
Skilgreiningar
Niðurgreiðslur á vistunarkostnaði eru háðar því að og börnin og foreldrar eða forráðamenn þeirra eigi lögheimili í Mosfellsbæ og einungis er niðurgreitt í ellefu mánuði hvers almanaksár, þ.e. áskilið er að börn taki sumarleyfi a.m.k. einn mánuð á tímabilinu 15. maí til 15. ágúst ár hvert.
Niðurgreiðslur renna til leikskóla bæjarins, leikskóla sem reknir eru af öðrum aðilum eða til dagforeldra með þjónustusamning við Mosfellsbæ.
Samþykkt
Foreldrar eða forráðamenn eru móttakendur niðurgreiðslu vistunarkostnaðar fyrir hönd þeirra barna sem sótt er um niðurgreiðslu vegna. Upphæðir niðurgreiðslu skv. samþykkt þessari skulu settar í sérstökum gjaldskrám.
1. gr.
Þegar barn verður 12 mánaða hækkar niðurgreiðsla Mosfellsbæjar og þar með færist gjald foreldra til jafns við almennt gjald foreldra á leikskólum Mosfellsbæjar. Hækkuð niðurgreiðsla tekur gildi í næsta mánuði eftir 12 mánaða aldur er náð.
2. gr.
Niðurgreiðslur fara þannig fram:
- Til foreldra og forráðamanna barna í leikskólum Mosfellsbæjar er niðurgreiðsla dregin frá vistunargjaldi skv. gjaldskrá hverju sinni um leið og reikningur er gefin út fyrir vistuninni, en reikningar eru gefnir út í upphafi vistunartímabils hverju sinni.
- Til foreldra og forráðamanna barna í öðrum leikskólum er niðurgreiðslan greidd mánaðarlega til rekstraraðila, samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Rekstraraðili sendir Mosfellsbæ reikning fyrir niðurgreiðslunni og með honum skal fylgja staðfesting foreldra á vistun. Skilyrði fyrir niðurgreiðslum er að fyrir liggi samningur milli Mosfellsbæjar og rekstraraðila leikskólans um að gjaldskrá foreldra sé ekki hærri en gjaldskrá leikskóla Mosfellsbæjar.
- Til foreldra og forráðamanna barna hjá dagforeldrum er niðurgreiðslan lögð inn á bankareikning dagforeldra í síðasta lagi 1. virka dag hvers mánaðar, enda liggi fyrir vistunarsamningur. Skilyrði fyrir niðurgreiðslum er að fyrir liggi þjónustusamningur milli Mosfellsbæjar og dagforeldris.
3. gr.
Samkvæmt samþykkt þessari geta foreldrar eða forráðamenn barna, sótt um viðbótarniðurgreiðslu af almennu vistunargjaldi í samræmi við tekjuviðmið sem Mosfellsbær setur. Niðurgreiðslur eru annars vegar 20% af almennu gjaldi og hins vegar 40%. Niðurgreiðslur eru ekki veittar af fæði. Vistunartímabil er almanaksmánuður eða brot úr honum.
4. gr.
Til þess að öðlast rétt til viðbótarniðurgreiðslu er horft til tekna foreldra, bæði einstaklinga og foreldra í sambúð, sem grundvallast á staðfestu staðgreiðsluyfirliti frá Ríkisskattstjóra síðustu þriggja mánaða.
Tekjuviðmið eru auglýst sérstaklega og skulu kynnt samhliða gjaldskrá. Bæjarráð Mosfellsbæjar staðfestir tekjuviðmið hverju sinni, að öllu jöfnu einu sinni á ári í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar. Tekjuviðmið eru reiknuð út frá launavísitölu pr. 1. apríl ár hvert og taka breytingum 1. janúar.
5. gr.
Foreldrar eða forráðamenn sem óska eftir viðbótarniðurgreiðslum skulu sækja um þær á Íbúagátt Mosfellsbæjar fyrir 20. dag mánaðar og skulu umbeðin gögn fylgja umsókn áður en hún er tekin til efnislegrar afgreiðslu. Niðurgreiðslurnar taka þá gildi næsta mánuð eftir að umsókn er afgreidd. Umsóknir eru ekki afturvirkar. Endurnýja þarf eldri umsóknir í október ár hvert. Undaþegnir eru þeir sem hafa fengið samþykki á síðustu þremur mánuðum.
6. gr.
Foreldrar með fleiri en eitt barn á sínu framfæri geta sótt um undanþágu frá tekjuviðmiðum ef ráðstöfunartekjur eru rétt ofan tekjumarka og félagslegar aðstæður viðkomandi eru þannig að rétt sé að meta þörf fyrir undanþágu. Þá skal horfa til fjölda barna í fjölskyldu og greiðslubyrði forsjáraðila vegna þess. Samráðsnefnd um vanskil leikskólagjalda fjallar um beiðnir um undanþágur og getur ákveðið að veita undanþágu tímabundið, þó aldrei lengur en eitt ár.
Sótt er um viðótarniðurgreiðslu á íbúagátt Mosfellsbæjar.
Samþykkt á 706 fundi Bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 29. nóvember 2017.
Gildir frá 1. janúar 2018.