Verklags- og samskiptareglur kjörinna fulltrúa, nefndarmanna og stjórnenda Mosfellsbæjar.
Kjörnir fulltrúar eru bæjarfulltrúar og varamenn þeirra. Nefndarmenn eru einstaklingar sem eru tilnefndir og kosnir í fagnefndir bæjarins og starfa í umboði bæjarstjórnar.
Kjörnir fulltrúar og nefndarmenn starfa samkvæmt:
- Samþykktum Mosfellsbæjar á hverjum tíma.
- Sveitarstjórnarlögum nr.138/2011.
- Stefnumarkandi samþykktum bæjarstjórnar.
- Samþykktum fjárhagsáætlunum.
- Lögum og reglum sem gilda um ákveðna málaflokka.
- Siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Mosfellsbæ.
- Reglum um ábyrgð og starfshætti.
- Verklagsreglum sem í gildi eru á hverjum tíma.
Hlutverk kjörinna fulltrúa er að:
Móta stefnu og samþykkja áætlanir fyrir starfsemi Mosfellsbæjar, einstakra deilda og stofnana bæjarfélagsins.
Setja starfsemi bæjarins reglur m.a. um hlutverk, ábyrgð og starfshætti nefnda, kjörinna fulltrúa og stjórnenda bæði í lögbundnum málaflokkum og öðrum.
Ákveða stjórnskipan sveitarfélagsins og framkvæma ráðningar samkvæmt VII kafla samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar.
Að hafa eftirlit með samþykktum og ákvörðunum bæjarstjórnar og nefnda og að fylgt sé lögum og samþykktum reglum í starfsemi sveitarfélagsins.
Bæjarstjóri og framkvæmdastjórn:
Bæjastjóri er ráðinn samkvæmt 47. grein samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar og hlutverk hans er skilgreint í 48. grein sömu samþykktar.
Bæjarstjóri er æðsti yfirmaður starfsliðs bæjarins. Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum.
Framkvæmdastjórar fagsviða eru ráðnir af bæjarstjórn. Þeir hafa það hlutverk að sjá til þess að stefnumörkun bæjarstjórnar, bæjarráðs og fagnefnda sé hrint í framkvæmd með skilvirkum og markvissum hætti.
Bæjarstjóri skipar framkvæmdastjórn úr hópi starfsmanna sér til fulltingis við lausn þeirra verkefna sem hann telur þörf á. Bæjarstjóri hefur heimild til að velja í framkvæmdastjórn þá einstaklinga sem hann telur vera hæfa hverju sinni. Framkvæmdastjórar sviða sem ráðnir eru samkvæmt 49. grein samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar eiga þó fast sæti í framkvæmdastjórn.
Bæjarstjóri ásamt framkvæmdastjórum sviða og forstöðumönnum deilda er tengiliður kjörinna fulltrúa við daglega starfsemi Mosfellsbæjar. Kjörnir fulltrúar og nefndarmenn hlutast aðeins til um stefnu með samþykktum í bæjarstjórn og á nefndarfundum en hafa sem einstaklingar ekki boðvald yfir starfsmönnum bæjarins.
Stjórnendur eru allir yfirmenn sviða, stofnana og deilda í Mosfellsbæ. Stjórnendur starfa samkvæmt:
- Samþykktum Mosfellsbæjar á hverjum tíma.
- Sveitarstjórnarlögum nr.138/2011.
- Stefnumarkandi samþykktum bæjarstjórnar.
- Samþykktum fjárhagsáætlunum.
- Lögum og reglum sem gilda um ákveðna málaflokka.
- Reglum um ábyrgð og starfshætti.
- Verklagsreglum sem í gildi eru á hverjum tíma.
- Lögum og reglum er varða starfsmannahald og réttindi starfsmanna.
- Gildandi kjarasamningum.
- Staðfestum stefnumótunarskjölum nefnda.
Hlutverk og starfshættir stjórnenda:
Stjórnendum Mosfellsbæjar ber að meta hag heildarinnar yfir hag einstaka sviðs, deildar eða einstakra starfsmanna og að taka ákvarðanir í samræmi við það.
Stjórnandi ber ábyrgð gagnvart næsta stjórnanda fyrir ofan hann í skipuriti.
Þegar stjórnanda er falið að rita umsögn um ákveðið mál skal hann rita umsögnina samkvæmt faglegri þekkingu og með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, enda mikilvægt að fagleg sjónarmið ráði för í allri ákvarðanatöku og störfum einstakra starfsmanna bæjarins. Kjörnum fulltrúum, starfsmönnum eða öðrum sem eiga hagsmuna að gæta er óheimilt að hafa áhrif á innihald slíkra umsagna.
Verði stjórnandi eða starfsmaður var við að reynt sé að hafa áhrif á innihald umsagnar, fái fyrirmæli sem eru ólögleg eða brjóti í bága við siðferðiskennd hans og fagleg sjónarmið er honum skylt að láta ekki undan slíkum þrýstingi og bregðast við. Sama á við verði starfsmaður var við ólöglega starfsemi eða ákvarðanir, sem brjóta í bága við ákvarðanir bæjarráðs/bæjarstjórnar.
Aðgangur að gögnum og verklag:
Bæjarstjórnarmaður á greiðan aðgang að bókum og skjölum bæjarins sem liggja fyrir og einnig óhindraðan aðgang að stofnunum og fyrirtækjum hans á afgreiðslutíma til upplýsingaöflunar vegna starfa sinna.
Óski bæjarfulltrúi upplýsinga sem krefjast sérstakrar vinnu starfsmanna, til dæmis úttektir og útreikningar, skal hann snúa sér til bæjarstjóra, framkvæmdastjóra eða forstöðumanna deilda með slíka ósk sem verða skulu við beiðninni svo fljótt sem unnt er.
Samskipti kjörinna fulltrúa og starfsmanna:
Einstakir kjörnir fulltrúar hafa ekki umboð til að gefa starfsmönnum fyrirmæli og skulu ekki hafa bein áhrif á störf þeirra eða ákvarðanir.
Kjörnum fulltrúum er óheimilt að reka erindi bæjarbúa við einstaka starfsmenn og vilji kjörinn fulltrúi koma máli í farveg skal það gert innan viðkomandi nefndar eða fyrir milligöngu bæjarstjóra eða viðkomandi framkvæmdastjóra sviðs.
Starfsmönnum er óheimilt að leita til kjörinna fulltrúa varðandi málefni er lýtur að launakjörum og starfsumhverfi, enda eru kjörnir fulltrúar ekki yfirmenn stjórnsýslunnar.
Samþykkt á 649. fundi Bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 6. maí 2015.