Reglur Mosfellsbæjar um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar sbr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
1. gr.
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar er heimilt að veita foreldrum eða öðrum forsjáraðilum og barni 15 ára og eldra fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en kveðinn er upp úrskurður sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi fjölskyldunefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Eftir atvikum er veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar.
2. gr.
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar er jafnframt heimilt að veita aðilum máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar fyrir kærunefnd barnaverndarmála með sömu skilmálum og koma fram í 1. gr. að breyttu breytanda.
Fjárstyrk má einnig veita með sömu skilmálum í þeim tilvikum þar sem barni er skipaður talsmaður sbr. 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga.
3. gr.
Fjárstyrkur til greiðslu lögmannskostnaðar er háður því skilyrði að löglærður aðstoðarmaður hafi réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti.
4. gr.
Foreldrar eða aðrir forsjármenn barna velja sér sjálfir lögmann. Hið sama gildir um barn sem náð hefur 15 ára aldri og er aðili máls sbr. 1. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
5. gr.
Beiðni um fjárstyrk skal vera skrifleg og undirrituð. Með beiðni skulu fylgja upplýsingar um eignir og tekjur styrkbeiðanda, s.s. staðfest ljósrit af síðasta skattframtali, afrit af álagningarseðli, yfirlit yfir tekjur viðeigandi og önnur þau gögn er Fjölskyldunefnd kann að kalla eftir. Jafnframt skal fylgja sundurliðuð tímaskýrsla lögmanns.
Heimilt er að veita styrk þegar efnahag styrkbeiðanda er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans yrði honum fyrirsjáanlega ofviða. Að jafnaði skal ekki veita styrk ef stofn til útreiknings rekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur styrkbeiðanda nema hærri fjárhæð en kr. 4.000.000. Sé styrkbeiðandi í hjúskap eða sambúð ber að hafa hliðsjón af tekjum maka og skulu samanlagðar árstekjur ekki nema hærri en kr. 5.500.000. Þó má veita styrk þótt tekjur séu umfram framangreindar viðmiðunarfjárhæðir í sérstökum undantekningartilfellum, t.d. ef mál er sérstaklega umfangsmikið og flókið, framfærslukostnaður styrkbeiðanda er óvenjulega hár af einhverjum ástæðum, aflahæfi hans eða maka eða sambúðaraðila er verulega skert til frambúðar eða aðrar knýjandi ástæður mæla með því.
Fjárhæð styrkjar skal metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skal tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda samkvæmt framangreindu þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin.
Viðmiðunargjald [i] vegna fjárstyrks miðast við ákveðna fjárhæð á hverja unna klukkustund lögmanns og er ákveðið af bæjarstjórn Mosfellsbæjar að fengnum tillögum framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs og lögmanns bæjarfélagsins.
Að jafnaði skal ekki veittur fjárstyrkur til greiðslu fleiri en 15 klst. vegna meðferðar máls fyrir fjölskyldunefnd og 10 klst. vegna meðferðar máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála.
6.gr.
Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs staðfestir reikninga vegna lögmannskostnaðar.
7. gr.
Ákvörðun um fjárhæð styrkjar er kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála sbr. 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
8.gr.
Reglur þessar skulu kynntar forsjáraðilum barns ef mál þeirra sæta meðferðar barnaverndarnefndar og þeim lögmönnum sem taka að sér að aðstoða þá sbr. 40.gr. barnaverndarlaga.
9. gr.
Reglur þessar eru settar með stoð í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga og öðlast gildi við staðfestingu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Samþykkt í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar 17. mars 2020.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 758. fundi 1. apríl 2020.
[i]17.000 krónur á klst. 1. apríl 2020 sbr. tillaga að gjaldskrá Mosfellsbæjar um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar skv. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.