Reglur um þátttöku ungs fólks í unglingaverkefni vinabæja.
1. gr.
Annað hvert ár geta ungmenni í 9. bekk í Mosellsbæ og með lögheimili í bænum sótt um þátttöku í unglingaverkefni – unglingamóti norrænna vinabæja Mosfellsbæjar. Vinabæirnir eru Thisted, Uddevalla, Loimaa og Skien auk Mosfellsbæjar.
2. gr.
Tímasetning mótanna er ýmist í byrjun sumars eða í ágúst; á sama tíma og vinabæjaráðstefnur. Bæirnir skiptast á að vera gestgjafar skv. samþykktum vinabæjasamstarfsins. Á unglingamótum hittast ungmenni frá vinabæjunum fimm ásamt hópstjórum og vinna saman að ýmsum menningar- og frístundatengdum verkefnum.
3. gr.
Markmið með verkefninu er að efla norræna samkennd og samvinnu og að efla samskipti milli ungmenna í vinabæjunum.
4. gr.
Horft er til eftirtalinna atriða þegar þátttakendur eru valdir:
- Umsækjandi þarf að geta tjáð sig á norrænu tungumáli eða ensku.
- Umsækjandi þarf að vera félagslega sjálfstæður og hafa góða færni í mannlegum samskiptum og samvinnu.
- Áhersla er lögð á að umsækjendur séu kurteisir, hafi góða framkomu og hlíti í hvívetna settum reglum. Þeir eru fulltrúar Mosfellsbæjar á erlendri grund.
- Umsögn kennara eða annars leiðbeinanda þarf að fylgja með umsókn.
- Í umsögn þurfa að koma fram upplýsingar um hæfileika, virkni og framkomu umsækjanda.
- Reynt er að gæta jafnræðis við val á þátttakendum, bæði hvað varðar kynferði og skóla.
5. gr.
Tómstundafulltrúi ber ábyrgð á vali einstaklinga á grundvelli 4. greinar. Það val fer fram að höfðu samráði við verkefnisstjóra vinabæjasamstarfs, Bólið – félagsmiðstöð, skóla og/eða leiðbeinenda, eftir því sem við á.
6. gr.
Mosfellsbær greiðir ferðakostnað þátttakenda en gestgjafabærinn býður gistingu og uppihald.
7. gr.
Íbúar eða stofnanir bæjarins skulu með einhverjum hætti njóta afraksturs af verkum þátttakenda á næsta skólaári eftir verkefni, þegar svo á við. Skal það gert í samráði við tómstundasvið Mosfellsbæjar.
1. febrúar 2016.