Samþykkt um systkinaafslátt hjá Mosfellsbæ.
1. gr. Hver nýtur systkinaafsláttar
Foreldrar og forráðamenn systkina er nota þjónustu dagforeldra, leikskóla og frístundaselja Mosfellsbæjar geta sótt um systkinaafslátt svo sem í samþykkt þessari greinir.
2. gr. Samræming systkinaafsláttar
Systkinaafsláttur er samræmdur fyrir börn á stofnunum bæjarins og fyrir börn hjá dagforeldrum, þannig að öll börn sem þar njóta þjónustu telja með í útreikningi á systkinaafslætti. Ekki er veittur afsláttur af gjaldi fyrir börn hjá dagforeldrum, en niðurgreiðsla er aukin fyrir hvert barn umfram eitt sem er í vistun hjá dagforeldrum.
3. gr. Hve mikill afsláttur er veittur
Fyrir fyrsta barn greiðist fullt gjald skv. gjaldskrá viðkomandi stofnunar.
Fyrir annað barn, veitist 50% afsláttur af vistunargjaldi og/eða gjaldi fyrir dvöl á frístundaseli (þe. ekki af fæði og ekki af 4 fyrstu tímunum á viku í frístund sjá nánar 4. grein).
Fyrir þriðja barn, veitist 75% afsláttur af vistunargjaldi og/eða gjaldi fyrir dvöl á frístundaseli (þe. ekki af fæði og ekki af 4 fyrstu tímunum á viku í frístund sjá nánar 4. grein).
Fyrir fjórða barn og fleiri veitist 100% afsláttur af vistunargjaldi (þe. ekki af fæði og ekki af 4 fyrstu tímunum á viku í frístund sjá nánar 4. grein)
Afslátturinn skal alltaf greiðast fyrir elsta / eldri systkini og því greitt fullt gjald fyrir yngsta barn.
Ekki er veittur systkinaafsláttur af fæði.
4. gr. Hvenær systkinaafsláttur er ekki veittur
Ekki er veittur systkinaafsláttur fyrir fyrstu fjórar klst. í viku hverri í frístundaseli.
Ekki er veittur systkinaafsláttur í sérstökum opnunartímum frístundasels s.s. í jóla, páska- og vetrarfríum.
Systkinaafsláttur er ekki veittur ef annar afsláttur er veittur t.d. niðurgreiðslur af félagslegum orsökum.
5. gr. Dagforeldrar
Þegar tvö börn eða fleiri eru í vistun hjá dagforeldri sem er með þjónustusamning við Mosfellsbæ er niðurgreiðsla frá Mosfellsbæ 50% hærri með hverju barni umfram eitt.
6. gr. Upphaf og endir afsláttar
Sækja þarf um systkinaafslátt á íbúagátt Mosfellsbæjar og tekur afslátturinn gildi í mánuðinum eftir að umsókn berst. Umsóknin er ekki afturvirk.
Um leið og eitt barn eða fleiri, úr sömu fjölskyldu hættir í daggæslu, í leikskóla eða á frístundaseli endurskoðast afslátturinn.
Samþykkt þessi er samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar 3. desember 2014 og gildir frá 1. janúar 2015.
Samþykkt á 639. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 3. desember 2014.