Reglur Mosfellsbæjar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.
I. kafli – Almennt um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra
1. gr. Lagagrundvöllur
Í reglum þessum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. VII. og VIII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og 4. og 5. tl. 8. gr. sem og IV. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
Í reglum þessum er fjallað um þjónustu samkvæmt framangreindum lögum. Orðið stuðningur er í reglum þessum notað yfir þá þjónustu sem fellur undir framangreind ákvæði.
2. gr. Markmið
Stuðningurinn er til handa foreldrum eða forsjáraðilum við uppeldi barna eða til að styrkja þá í uppeldishlutverki sínu svo þeir geti búið börnum sínum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði. Einnig er stuðningurinn til handa börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa aðstoð vegna fötlunar, skerðinga, langvinnra veikinda og/eða félagslegra aðstæðna.
Lögð skal áhersla á að styrkja fatlaða foreldra við að halda heimili og taka þátt í samfélaginu. Leggja ber áherslu á sérhæfða ráðgjöf og félagslegan stuðning til að hvetja til félagslegrar þátttöku.
Þegar börnum er veittur stuðningur skal hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu og stuðlar að félagslegri aðlögun þess og þroska.
Stuðningur samkvæmt reglum þessum skal ætíð koma fram í stuðningsáætlun eða einstaklingsbundinni þjónustuáætlun, eftir því sem við á hverju sinni og vera í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð.
3. gr. Stuðningur
Stuðningur fyrir börn og fjölskyldur er til handa þeim sem þurfa aðstoð vegna félagslegra aðstæðna, skertrar getu, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningur samkvæmt reglum þessum er veittur bæði innan heimilis og utan. Stuðningur skal ávallt metinn í samhengi við heildarmat allrar þeirrar þjónustu sem veitt er til barns og fjölskyldu þess.
Við veitingu stuðnings til fjölskyldna skal ætíð leita eftir sjónarmiði barns eftir því sem aldur þess og þroski leyfir.
Um umfang stuðnings skv. liðum a, b, og c í grein þessari vísast til 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem fram kemur að aðstoð geti numið samanlagt allt að 15 klukkustundum á viku. Hámarksstuðningur er aldrei veittur nema þegar um umfangsmiklar þjónustuþarfir er að ræða að mati fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar.
Um er að ræða eftirfarandi stuðning:
a) Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf: Markmið með foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf er að aðstoða og leiðbeina foreldrum eða forsjáraðilum við að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði og aðbúnað barna. Stuðningur getur verið veittur hvort sem er innan eða utan heimilis, s.s. við skipulag og ráðgjöf. Allur stuðningur miðar að því að mæta mismunandi þörfum foreldra og að því að valdefla þá í hlutverki sínu.
b) Einstaklingsstuðningur fyrir 6-17 ára: Markmið með einstaklingsstuðningi er að rjúfa félagslega einangrun, efla lífsleikni, samfélagsþátttöku og efla börn til aukinnar sjálfshjálpar. Einstaklingsstuðning má útfæra í formi hópastarfs þar sem tvö eða fleiri börn eru saman ef það hentar barninu betur og þjónar þeim markmiðum sem unnið er að. Einstaklingsstuðningur getur numið að hámarki 20 klst. á mánuði.
c) Stuðningsfjölskylda fyrir 4-12 ára: Markmið með stuðningsfjölskyldu er að styðja foreldra eða forsjáraðila í uppeldishlutverki sínu og/eða styrkja stuðningsnet barns eftir því sem við á og auka möguleika barnsins á félagslegri þátttöku. Dvöl hjá stuðningsfjölskyldu getur að hámarki verið þrír sólarhringar á mánuði sem reiknast að hámarki sem 36 stundir á mánuði og er veitt samkvæmt sérstöku mati fjölskyldusviðs þegar um umfangsmikinn vanda er að ræða.
Um umfang stuðnings skv. liðum d, e, f og g í grein þessari vísast til IV. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Hámarksstuðningur er aldrei veittur nema þegar um umfangsmiklar þjónustuþarfir er að ræða að mati fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar.
d) Einstaklingsstuðningur fyrir 6-17 ára: Markmið með einstaklingsstuðningi er að rjúfa félagslega einangrun, efla lífsleikni, samfélagsþátttöku og efla börn til aukinnar sjálfshjálpar. Einstaklingsstuðning má útfæra í formi hópastarfs þar sem tvö eða fleiri börn eru saman ef það hentar barninu betur og þjónar þeim markmiðum sem unnið er að. Einstaklingsstuðningur getur að hámarki numið 20 klst. á mánuði sem kemur þá til viðbótar þjónustu skv. b. lið þessarar greinar, samtals 40 klst. á mánuði.
e) Stuðningsfjölskylda fyrir 0-17 ára: Um stuðningsfjölskyldur gilda reglur Mosfellsbæjar um þjónustu stuðningsfjölskyldna fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
f) Skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni: Um skammtímadvalir gilda reglur Mosfellsbæjar um skammtímadvalir fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
g) Beingreiðslusamningar/Notendasamningar: Barnafjölskyldur sem metnar hafa verið í þörf fyrir stuðnings- og/eða stoðþjónustu geta sótt um að þjónustan sé útfærð skv. beingreiðslusamningi/notendasamningi. Um slíka samninga gilda reglur Mosfellsbæjar um beingreiðslusamninga.
4. gr. Skilyrði fyrir samþykkt
Eftirfarandi skilyrði skulu uppfyllt til að umsókn sé samþykkt:
- Umsækjandi og barn sem umsókn lýtur að skulu eiga lögheimili í Mosfellsbæ meðan þjónustan er veitt.
- Umsækjandi skal hafa forsjá barns sem umsókn lýtur að.
- Umsækjandi og barn hans skulu vera metin í þörf fyrir stuðning samkvæmt matsviðmiðum 2. mgr. 6. gr. í reglum þessum og skal mat framkvæmt með barni.
- Hafi komið til könnunar máls samkvæmt V. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal henni vera lokið. Niðurstaða könnunar að mati barnaverndar sýni þörf fyrir félagslegan stuðning, en mál verði ekki unnið áfram á grundvelli barnaverndarlaga.
lI. kafli – Umsóknir og mat
5. gr. Umsókn
Sótt er um í gegnum þjónustugátt Mosfellsbæjar.
6. gr. Mat á stuðningsþörf
Mat á stuðningsþörf er gert í samvinnu við umsækjanda og tekur mið af þörfum fjölskyldunnar. Mat á stuðningsþörf getur farið fram á heimili umsækjanda eða á öðrum vettvangi umsækjanda sé þess kostur. Niðurstaða mats skal koma fram í áætlun máls. Við mat á stuðningsþörf er horft til heildaraðstæðna fjölskyldunnar og skipulags daglegs lífs.
Við mat á þörf og forgangsröðun skal líta til eftirfarandi atriða:
- Félagslegra aðstæðna.
- Samfélagsþátttöku og virkni.
- Félagslegrar færni.
- Styrkleika.
- Athafna daglegs lífs.
- Heilsu.
- Hegðunar.
- Annarra mikilvægra upplýsinga.
Sé niðurstaða mats sú að aðstæður barns og fjölskyldu séu með þeim hætti að ekki sé þörf á stuðningi samkvæmt reglum þessum er umsókn synjað.
7. gr. Stuðningsáætlun
Áður en stuðningur hefst skal gera stuðningsáætlun eða einstaklingsbundna þjónustuáætlun eftir því sem við á. Þar skal m.a. koma fram gildistími samþykktar, hvers konar stuðningur verði veittur, verkefni og vinnutilhögun. Stuðningurinn skal ætíð byggja á skýrum markmiðum og koma skal fram hvernig árangur verði metinn.
Í þeim tilvikum sem stuðningsþörf er viðvarandi samkvæmt lögum nr. 38/2018, skal 12 mánuðum áður en umsækjandi nær 18 ára aldri liggja fyrir áætlun um áframhaldandi stuðning.
8. gr. Forgangsröðun umsókna
Ef fyrirséð er að stuðningur skv. d.-g. liðum 3. gr. geti ekki hafist innan þriggja mánaða skal umsókn sett á biðlista. Umsækjandi er upplýstur um áætlaða lengd á biðtíma og hvaða stuðningur standi honum til boða á biðtímanum, sbr. ákvæði reglugerðar um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu, nr. 1035/2018, ef við á.
III. kafli – Framkvæmd
9. gr.Tími stuðnings
Þjónusta samkvæmt reglum þessum er ekki veitt að næturlagi. Þó er þjónusta stuðningsfjölskyldu, skv. c. og e. lið 3. gr. og skammtímadvöl skv. f. lið 3. gr. almennt veitt allan sólarhringinn.
10. gr. Gildistími og endurmat
Þegar stuðningur hefst skal gerð stuðningsáætlun og stuðningur samþykktur til ákveðins tíma, í fyrsta skipti til þriggja mánaða en að þeim tíma liðnum skal endurmeta fyrirkomulagið með tilliti til framlengingar. Eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti skal árangur metinn, gerðar viðeigandi breytingar eða stuðningi lokið. Þegar breytingar verða á aðstæðum og högum fjölskyldu skal endurmeta stuðningsþörf.
Í þeim tilvikum sem stuðningsþörf er viðvarandi samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk, er heimilt að samþykkja þjónustu til tveggja ára.
IV. kafli – Málsmeðferð
Um málsmeðferð gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og ákvæði VII. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
11. gr. Könnun á aðstæðum
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn berst. Mosfellsbær skal taka ákvörðun í máli án óhóflegra tafa og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
12. gr. Samvinna við umsækjanda
Við meðferð umsóknar, öflun gagna og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti við lögráðamann eða persónulegan talsmann hans eftir því sem við á. Leita skal eftir afstöðu barns eða eftir atvikum hafa samráð við það, eftir því sem aldur og þroski þess leyfir, þó skal starfsmaður fjölskyldusviðs ávallt hitta barnið áður en ákvörðun um þjónustu er tekin.
13. gr. Endurskoðun
Rétt til stuðnings samkvæmt reglum þessum má endurskoða hvenær sem er. Meta skal hvort umsækjandi fullnægi skilyrðum reglna þessara og hvort breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda og/eða annarra heimilismanna hafi áhrif á rétt hans.
14. gr. Rangar eða villandi upplýsingar
Ef sannreynt er við meðferð máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi, stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan umsækjanda er gefið tækifæri til að leiðrétta eða bæta úr annmörkum.
Ef umsókn um stuðning samkvæmt reglum þessum er lögð fram á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hálfu umsækjanda veldur það ógildi umsóknar eða getur leitt til afturköllunar ákvörðunar.
15. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.
Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
16. gr. Leiðbeiningar til umsækjanda
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upplýsingar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal starfsmaður einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna framkvæmdar samkvæmt reglum þessum.
Sérstaklega skal gætt að frumkvæðisskyldu hvað varðar afgreiðslu umsókna um stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk, sbr. 32. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
17. gr. Heimildir til ákvarðana
Fjölskyldusvið Mosfellsbæjar tekur ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar.
18. gr. Niðurstaða og rökstuðningur synjunar
Kynna skal niðurstöðu umsóknar með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt, rökstutt svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi ákvæða reglna þessara. Upplýsa skal umsækjanda um rétt hans til að fara fram á endurskoðun synjunarinnar. Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun.
19. gr. Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála
Ákvörðun fjölskyldunefndar skal kynnt umsækjanda bréflega og um leið skal honum kynntur réttur hans til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála, sé um synjun að ræða. Synjun fjölskyldunefndar er hægt að áfrýja innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda var kunngert um ákvörðun fjölskyldunefndar.
20. gr. Gildistaka
Samþykkt á 307. fundi fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar þann 18. maí 2021. Staðfest á 784. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 2. júní 2021. Reglur þessar öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum og jafnframt falla úr gildi reglur Mosfellsbæjar um liðveislu frá 1. nóvember 2017 sem birtar voru á vef Mosfellsbæjar.